Ítarleg trúnaðarsamtöl á leynifundum

Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar komu saman í dag.
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar komu saman í dag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Á leynifundum borgarstjórnaflokka Samfylkingar og Besta flokksins fara fram ítarleg trúnaðarsamtöl. Þau fara fram í góðum anda og yfirvegun. Og þau ganga mjög vel. Þetta sagði Dagur B. Eggertsson á félagsfundi Samfylkingarfélaganna í Reykjavík í kvöld.

„Við höfum verið að ræða okkur í gegnum hvern málaflokkinn á fætur öðrum til þess að finna út um það hvort einhvers staðar séu sker sem líklegt er að þennan meirihluta geti rekið upp á. Það er ekki nýtt fyrir neinum, að það eru gríðarleg verkefni og viðfangsefni framundan við stjórn borgarinnar. Og þess vegna eru þessi ítarlegu samtöl mjög nauðsynleg,“ sagði Dagur og sagði góðan anda á fundunum en einnig þann kraft sem stafaði frá framboði Besta flokksins í kosningabaráttunni.

Þessi sami kraftur hefur orðið til þess að Dagur velti fyrir sér hvort hann „geti skipt máli í sjálfu sér til þess að gera það sem við ætluðum en mistókst að sumu leyti; að vekja borgina. Að vekja borgarbúa og rífa samfélagið saman. Fram til nýrra átaka, til að takast á við kreppuna og koma okkur á næsta reit með meiri bjartsýni og von en samfélagið hefur einkennst af, skiljanlega.“


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert