Gjaldskrárhækkun OR ofmetin

Orkuveita Reykjavíkur
Orkuveita Reykjavíkur mbl.is/ÞÖK

Meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks telur þörf á gjaldskrárhækkun hjá Orkuveitu Reykjavíkur stórkostlega ofmetna. Í fjölmiðlum hefur því verið haldið fram að hækka þurfi verð á heitu vatni um 37%. Sú tala byggir á því hversu mikið gjaldskrár þyrftu að breytast ef bættri afkomu væri einungis mætt með gjaldskrárhækkunum, að því er segir í bókun flokkanna. Útilokað sé hins vegar að bættri afkomu verði einungis mætt með gjaldskrárhækkunum.

Eftirfarandi er bókun meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í borgarráði í dag: „Borgarráð áréttar þá stefnu Reykjavíkurborgar að gjaldskrár Orkuveitu Reykjavíkur hækki ekki á árinu 2010. Í samræmi við þessa stefnu gerir fjárhagsáætlun ársins 2010 ráð fyrir óbreyttum gjaldskrám og stendur ekki til að breyta þeim.

Gjaldskrár Orkuveitunnar hafa ekki hækkað í langan tíma, í samræmi við aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar, og því lækkað að raungildi. Það eru því engin ný tíðindi fólgin í því að gjaldskrár þurfi að taka breytingum þegar horft er til næstu fimm ára, eða til ársins 2015, sem heildarstefna Orkuveitunnar nær til.

Í svari stjórnenda Orkuveitunnar við fyrirspurn stjórnarmanns um arðsemi er því svarað hversu mikið gjaldskrár þyrftu að breytast ef bættri afkomu væri einungis mætt með gjaldskrárhækkunum en ekki einnig með hagræðingu, bættu gengi o.s.frv. Við mat á gjaldskrárbreytingum er skv. svarinu því ekki tekið tillit til annarra þátta, s.s. hagræðingar í rekstri, heimsmarkaðsverðs á áli, stöðu gjaldmiðla eða vaxtakjara á lánamörkuðum.

Útilokað er að bættri afkomu yrði einungis mætt með gjaldskrárhækkunum. Gjaldskrárhækkunarþörfin samkvæmt svarinu er því stórkostlega ofmetin. Ekki kemur til greina að samþykkja hana án undangenginnar skoðunar á því með hvaða hætti hægt verði að draga úr rekstrarkostnaði þannig að fyrirtækið velti ekki allri fjárþörf sinni yfir á almenning...“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert