Þjóðin hvött til að senda myndband

Stilla úr landkynningarmyndbandinu.
Stilla úr landkynningarmyndbandinu.

Þjóðarátak í landkynningu hefst í dag og eru Íslendingar hvattir til þess að senda vinum og kunningjum erlendis tölvupóst með sérstöku landkynningarmyndbandi.

Þjóðarátakið er í tengslum við Inspired by Iceland, markaðsátak ferðaþjónustunnar á erlendum mörkuðum og er tilgangurinn að virkja íslenskan almenning og fá fólk til þess að vekja jákvæða athygli á Íslandi undir heitinu Þjóðin býður heim. Er ætlunin að sýna útlendingum að nú sé rétti tíminn til að sækja landið heim.

Landkynningarmyndbandinu er ætlað að slá á ranghugmyndir í öðrum löndum um ástandið á Íslandi eftir gosið í Eyjafjallajökli og að sýna landið í réttu ljósi, eins og því er lýst í tilkynningu. Í myndbandinu sést fólk dansa við smell Emilíönu Torrini, „Jungle Drum“, en það lag hefur ekki verið notað áður í kynningarskyni, í auglýsingum eða öðru. Emilíana lagði landkynningunni lið með því að leyfa notkun á laginu í myndbandinu.

Fólk er hvatt til þess sérstaklega að senda myndbandið með tölvupósti á vini, kunningja eða aðra sem það þekkir í útlöndum, í dag milli kl. 13-14. Þó geta þeir sem ekki hafa tök á því að senda póst á þeim tíma sent hann síðar.

Myndbandið má finna á eftirfarandi slóð: http://www.inspiredbyiceland.com/

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert