Þorskstofninn stækkar

Aflamark þorsk verður 160 þúsund tonn á næsta ári samkvæmt …
Aflamark þorsk verður 160 þúsund tonn á næsta ári samkvæmt aflareglu. mbl.is/ÞÖK

Hrygningarstofn þorsks er á uppleið og samkvæmt aflareglu gæti aflamark á næsta fiskveiðiári orðið 160 þúsund tonn en er 150 þúsund tonn á yfirstandandi ári. Hafrannsóknastofnun leggur hins vegar til að aflamark ýsu verði 45 þúsund tonn en aflamarkið er nú 63 þúsund tonn.

„Styrking hrygningarstofns þorsks er skólabókardæmi um hvernig aðgerð í fiskveiðistjórnun getur skilað árangri," sagði Jóhannn Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar í dag. Lagði hann áherslu á, að stjórnvöld héldu sig við þá stefnu að þorskveiði verði ekki yfir 20% af viðmiðunarstofni, sem nú  er áætlaður 846 þúsund tonn.

Sagði hann að Alþjóðahafrannsóknastofnunin, ICES, hefði gert úttekt á reglunni á síðasta ári og niðurstaðan var sú að hún stæðist ýtrustu kröfur og skilaði markmiðum um uppbyggingu hrygningarstofns.

„Þetta er mikilvægt fyrir íslenskan sjávarútveg, sem er að flytja út hágæða íslenskan þorsk og markaðurinn krefst þess að það sé gert með sjálfbærum hætti," sagði Jóhann. 

Fram kemur í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um ástand helstu nytjastofna við Ísland, að árgangar þorsksins endist nú betur en áður í stofninum og hann fari nú vaxandi. Hlutdeild eldri fisks í afla hafi vaxið þrátt fyrir að lélegir árgangar séu uppistaða veiðistofnsins nú.

Skýrsla Hafrannsóknastofnunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert