Lög um fjármálafyrirtæki samþykkt samhljóða á Alþingi

Alþingi.
Alþingi. Árni Sæberg

Frumvarp til laga um fjármálafyrirtæki var samþykkt á Alþingi með 49 samhljóða atkvæðum. Voru allar breytingatillögur minnihlutans felldar. Pétur H. Blöndal kallaði frumvarpið hænuskref í rétta átt.

Guðlaugur Þór Þórðarson, Sjálfstæðisflokki, sagði í ræðu sinni við upphaf þingfundar að engan veginn væri nógu langt gengið með frumvarpi til laga sem felur í sér hertar reglur fyrir fjármálafyrirtæki. Stærsti hluti umbóta í umhverfi fjármálafyrirtækja væru eftir. Hann gat þess þó að meirihlutinn hefði komið að nokkru til móts við tillögur minnihlutans og kvað sjálfstæðismenn myndu greiða atkvæði með frumvarpinu. Hann varaði við að fólk teldi að nóg væri að gerð.

Var frumvarpið samþykkt með breytingartillögum meirihlutans með 49 samhljóða atkvæðum.

Pétur H. Blöndal, Sjálfstæðisflokki, kallaði frumvarpið eitt hænuskref í rétta átt. Stjórnin hefði enga framtíðarsýn fyrir fyrirtæki og banka, hún sæi hreinlega ekki út vikuna. Sagði hann að farið væri á mis við gullið tækifæri til að gera umbætur á þessu sviði. Hann sagðist þó myndu samþykkja frumvarpið.

Eygló Harðardóttir, Framsóknarflokki, sagði hænuskrefin vera af hinu góða og með frumvarpinu væru nokkur slík tekin. Sagðist hún telja að aðgerðir stjórnarinnar hingað til hafi aðallega beinst að því að endurreisa það fjármálakerfi sem áður var hér á landi. Um þetta sagðist hún hafa efasemdir.

Magnús Orri Schram, Samfylkingu, kallaði frumvarpið gott og mikilvægt skref inn í framtíðina og Lilja Mósesdóttir, Vinstri Grænum, sagði að ekki væri gengið lengra vegna viðvarana OECD um að fara varlega í að aðskilja fjárfestingastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi.

Tryggvi Þór Herbertsson, Sjálfstæðisflokki, kallaði frumvarpið bútasaum og kallaði eftir frekari breytingum á því en lýsti ánægju með þær breytingar sem á frumvarpinu hafa orðið í meðförum þingsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert