Fjölmenni á Hrafnseyri

Hrafnseyri við Arnarfjörð. Fæðingarstaður Jóns forseta.
Hrafnseyri við Arnarfjörð. Fæðingarstaður Jóns forseta. mbl.is/Sigurður Bogi

Hátt í þriðja hundrað manns komu saman á Hrafnseyri, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, við Arnarfjörð í dag. Einmunablíða var á Hrafnseyri að sögn, Valdimars Jóns Halldórssonar framkvæmdastjóra Hrafnseyrarnefndar.

„Stemningin var alveg frábær. Þetta byrjaði klukkan tólf með útskrift meistaranema í Haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða í þessu rosalega fína veðri. Við vorum öll úti. Það logn og heiðskírt fram yfir messu. Svo var Katrín Jakobsdóttir með skínandi ræðu.“

- En hvernig hefur aðsóknin verið í sumar?

„Fyrrasumar var það besta síðan ég tók við starfinu 2005. Þá komu um 6.000 manns en miðað við það finnst mér heldur minna í maí og júní. Ég opnaði nú ekki fyrr en 1. júni en útlendingar eru að koma svona þrír, fjórir á dag,“ segir Valdimar Jón.

- Er þetta alltaf jafn hátíðlegt?

„Já. Það er alltaf jafn hátíðlegt. Athöfnin var mjög flott núna. Söngvarinn, Peter John Buchan, söng mjög fallega.“

Þess má geta að Buchan er frá Winnipeg í Kanada og kennari við íslenskudeild Manitóbaháskóla en hann syngur íslensk ættjarðarlög á íslensku.

Fram kemur á vefnum hrafnseyri.is að Peter hefur sungið einsöng með helstu kórum og symfóníuhljómsveitum Winnipeg borgar og haldið tónleika í London, Prag og Reykjavík. Undirleikari var Albertína Elíasdóttir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert