Skuldavandinn tekinn fyrir á Alþingi

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir á Alþingi, ásamt Tryggva Þór Herbertssyni, þingmanni …
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir á Alþingi, ásamt Tryggva Þór Herbertssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar

Frumvarp félags- og tryggingamálanefndar um greiðsluaðlögun einstaklinga var rætt á Alþingi í dag, í 3. umræðu. Markmið frumvarpsins er að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu.

Málið hefur verið í vinnslu hjá nefndinni að undanförnu og mælti formaður hennar, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, fyrir áliti nefndarinnar og allnokkrum breytingum.

Breytingarnar sem nefndin leggur til lúta meðal annars að því að koma í veg fyrir að kröfuhafar hafi kerfisbundið hagræði af því að þvinga fram nauðasamninga. Áréttaði hún að kröfuhafar sem synja um samning um greiðsluaðlögun án þess að hafa af því lögvarða hagsmuni eigi ekki von á betri rétti eða kjörum í nauðasamningi eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna, auk þess sem unnt sé að dæma þeim á þá málskostnað.

Einnig tók félags- og tryggingamálanefnd skýrar á því hvernig verk skulu skiptast á milli umsjónarmanns með greiðsluaðlögun og svo umboðsmanns skuldara, sem er nýtt embætti sem sett verður á fót með nýjum lögum, sem einnig eru rædd í þinginu í dag.

Nefndin ræddi allnokkuð heimild þeirra sem búsettir eru erlendis til greiðsluaðlögunar. Lagði hún til að almennt verði gert að skilyrði að einstaklingur eigi lögheimili á Íslandi til að geta fengið greiðsluaðlögun, með tilteknum undanþágum þó.

Nokkuð var rætt um það hversu mikla vinnu ætti að leggja á skuldarann sem sækist eftir greiðsluaðlögun, við að afla gagna og upplýsinga. Nefndin lagði til að upplýsingar um maka og heimilisfólk skuldarans þyrfti einnig að fylgja með umsókninni. Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, talaði hins vegar fyrir því að skuldarinn ætti bara að þurfa að skila inn nafni sínu og kennitölu og upplýsingum um það hvaða skuldir hann vildu að færu í greiðsluaðlögun, aðrar upplýsingar lægju allar fyrir hjá ríkisstofnunum og bönkum, sem ættu að skila þeim inn.

Nefndin lagði til fleiri breytingar, svo sem að umboðsmaður skuldara skyldi setja umsjónarmönnum greiðsluaðlögunar verklagsreglur sem tryggi samræmd vinnubrögð og gagnsæi við vinnu þeirra.

Fleiri frumvörp um skuldavanda heimilanna hafa verið rædd á Alþingi í dag, þ.e. frumvarp um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, tímabundin úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota og um umboðsmann skuldara. Umræða um síðastnefnda málið stendur enn yfir.

Meðfylgjandi eru slóðir á feril þessara mála hjá Alþingi og efni þeirra:

Greiðsluaðlögun einstaklinga

Tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði

Tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota

Umboðsmaður skuldara

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert