Draga lögmæti starfandi stjórnarformanns OR í efa

Fulltrúar Sjálfstæðismanna og Vinstri grænna í borgarráði ítreka andstöðu sína við ákvörðun meirihlutans um ráðningu starfandi stjórnarformanns í stjórn Orkuveitu Reykjavík. 

Fram kemur í tilkynningu að fulltrúarnir hafi í dag óskað eftir áliti borgarlögmanns á lögmæti ákvörðunar Besta flokksins og Samfylkingarinnar um starfandi stjórnarformann Orkuveitu Reykjavíkur.

Tvær fyrirspurnir hafi verið lagðar fram í borgarráði í dag til að fá úr þessu skorið. Að auki hafi verið óskað eftir rökstuðningi á milljón króna mánaðarlaunum stjórnarformannsins. Laun hans séu fullkomlega á skjön við hagræðingu hjá starfsmönnum borgarinnar og fyrirtækjum hennar.

Fyrirspurnir Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna í borgarráði 1. júlí 2010:

„Á eigendafundi Orkuveitunnar lagði borgarstjóri fram tillögu um „að stjórnarformaður verði í fullu starfi tímabundið meðan lagt er vandað mat á aðstæður og ýtt er úr vör nauðsynlegum breytingum í samstarfi við starfsfólk Orkuveitunnar.“  Einnig kemur fram í bókun Besta flokksins og Samfylkingarinnar á síðasta fundi borgarráðs verkþátturinn „Brýnar breytingar kalla á skýra forystu stjórnar Orkuveitunnar. Stjórnarformaður mun fyrst um sinn sinna því verkefni í fullu starfi til að meta stöðuna með stjórn fyrirtækisins og vinna að nauðsynlegum breytingum.“
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óska eftir að borgarlögmaður leggi faglegt mat á lögmæti ákvörðunar Besta flokksins og Samfylkingarinnar um ráðningu stjórnarformanns annars vegar í ljósi nýrra laga um hlutafélög sem samþykkt voru í vetur og hins vegar út frá hefðum og venjum stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur.  Við 1. mgr. 70. gr. laga um hlutafélög er nýr málsliður sem orðast svo: „Formaður félagsstjórnar skal ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns, að undanskildum einstökum verkefnum sem félagsstjórnin felur honum að vinna fyrir sig.“  Einnig er óskað eftir því að lagt sé mat á þá stöðu sem stjórnarformaður er settur í varðandi skilgreint eftirlitshlutverk sitt sem er eitt af meginhlutverkum stjórnarinnar.  Fyrirspurninni sé svarað eins fljótt og hægt er svo málið verði skýrt fyrir stjórn og starfsfólki Orkuveitu Reykjavíkur.“

„Á eigendafundi OR 25. júní 2010 var samþykkt tillaga borgarstjóra um að stjórnarformaður Orkuveitunnar yrði í fullu starfi og að ,,heildarkjör stjórnarformanns í fullu starfi miðast við kjör sviðsstjóra hjá Reykjavíkurborg án fríðinda.” Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna óska eftir því hver tekur ákvörðun um laun stjórnarformanns og á hvaða forsendum, hvers vegna miðað er við laun sviðsstjóra hjá Reykjavíkurborg, hvaða aðstöðu starfandi stjórnarformaður hefur hjá Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavíkurborg og hver sé hans yfirmaður.  Einnig er óskað eftir því hvernig borgarstjóri rökstyður þessi laun hjá stjórnarformanninum þegar verið er að skera niður á öllum sviðum Reykjavíkurborgar, laun stjórnarmanna OR hafa verið gagnrýnd fyrir að vera of há nú þegar og verið er að draga úr yfirvinnu og hlunnindum.“
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert