Dreng bjargað úr kviksyndi

Myndin er tekin undir Þórólfsfelli og er úr myndasafni.
Myndin er tekin undir Þórólfsfelli og er úr myndasafni. Rax / Ragnar Axelsson

Átta ára dreng var bjargað úr kviksyndi rétt vestan við Gilsá undir Þórólfsfelli síðdegis í dag. Hann var sokkinn upp fyrir mitti á öðrum fæti og var fastur þegar honum var bjargað og orðinn býsna kaldur. Lögregla og Björgunarsveitin Dagrenning á Hvolsvelli komu drengnum til bjargar.

Drengurinn var á ferð með systur sinni og tveimur stúlkum þegar hann gekk út í sandbleytuna, skammt frá föstu landi. Hann var fastur í pyttinum í á að giska klukkutíma og var orðinn ansi kaldur þegar björgunarmenn komu á vettvang.  

„Þetta hélt okkur ekki og þýddi ekkert að ganga þarna út á,“ sagði Adolf Árnason varðstjóri sem fór á staðinn. „Ef ég hefði farið þarna þá hefði ég bara sokkið.“

Lagt var timburborð yfir sandbleytuna og lítill timburstigi til að komast að drengnum. Tveir björgunarsveitarmenn fóru út á brúna og mokuðu drenginn upp með skóflum og höndum. Það tók um tíu mínútur að mati Adolfs.

„Þetta var mjög hugrakkur strákur og tók þessu ótrúlega vel, þótt þetta hafi verið mikil lífsreynsla fyrir níu ára gamalt barn,“ sagði Adolf. Drengurinn er fæddur árið 2001 og verður 9 ára í haust.

Adolf sagði að erfitt geti verið að sjá sandbleytuna því öll spor afmáist fljótlega. Því geti verið hættulegt að ganga á söndunum þar sem bleyta sést. „Það eru pyttir þarna út um allt.“

Drengurinn var fluttur á Heilsugæslustöðina á Hvolsvelli þar sem læknir skoðaði hann til öryggis og útskrifaði að skoðun lokinni. Strákurinn fékk svo að fara í sturtu á lögreglustöðinni á Hvolsvelli og fór svo heim. 


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert