Fréttaskýring: Barnaverndin harður heimur og harðnandi

Heimur barnaverndarmála er harður og hefur farið harðnandi undanfarin ár að sögn Halldóru Drafnar Guðmundsdóttur, forstöðumanns Barnaverndar Reykjavíkur. Frá Félagsþjónustu Kópavogs heyrist svipuð saga. Halldóra segir að meira sé nú um hótanir í garð starfsmanna barnaverndarnefndar og þeir óski nánast alltaf fylgdar lögreglu þegar farið sé inn á heimili fólks. Þá séu dæmi um að foreldrar eða forráðamenn, sem barnaverndaryfirvöld komist í kast við, tengist erlendri skipulagðri glæpastarfsemi.

Tilkynningar til barnaverndarnefnda voru álíka margar á fyrsta fjórðungi þessa árs og á sama tíma í fyrra, um 2.400 talsins. Tíðni ábendinga um andlegt ofbeldi tvöfaldaðist næstum milli ára og fjöldi tilkynninga um vímuefnaneyslu barna jókst um 54,7%. Aftur á móti voru mun færri ábendingar á fyrsta ársfjórðungi í ár um kynferðisofbeldi, erfiðleika í skóla og að barn stefndi sjálfu sér í hættu.

Þetta kemur fram í skýrslu Barnaverndarstofu. Hlutfall tilkynninga um vanrækslu var svipað milli ára en tilkynningar um ofbeldi juku hlut sinn á kostnað ábendinga um áhættuhegðun. Flestar tilkynningar varða þó áhættuhegðun eins og á fyrsta fjórðungi liðins árs.

Halldóra varar við að draga of víðtækar ályktanir af samantekt á svo stuttu tímabili en segir þróun í barnaverndarmálum og hina auknu hörku hafa komið til áður en efnahagsþrengingarnar hófust og telur því ekki að þær séu höfuðorsök hennar. Í kjölfar efnahagshrunsins segist hún þó telja að fólk sé veikara fyrir og sé hættara við að fara út af sporinu, hvort sem er í heimilislífinu eða í samskiptum við barnavernd. Það segi sig sjálft að þegar erfiðleikar steðji að eins og nú sé hættara við en ella að upp úr sjóði.

Lögreglan í aukahlutverki

Halldóra segir samstarf lögreglu og barnaverndarnefnda gott en það megi gjarna styrkja og gera nánara í ljósi þeirrar hörku sem færst hefur í þau mál sem koma til meðferðar barnaverndaryfirvalda.

Í ávarpi sínu í nýútkominni ársskýrslu félagsþjónustu Kópavogs sagði Aðalsteinn Sigfússon, félagsmálastjóri, að barnaverndaryfirvöld væru vanmáttug þar sem úrræðin sem þau hafi yfir að ráða séu fá og ekki nógu virk. Bæta þurfi þetta og koma á virkara samstarfi. Halldóra tekur ekki eins djúpt í árinni en segir að alltaf megi bæta og efla starfið.

Marta Kristín Hreiðarsdóttir, deildarsérfræðingur í upplýsinga- og áætlanadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segist ekki hafa orðið þess vör að barnaverndaryfirvöld kalli oftar en áður eftir aðstoð lögreglu í málum sínum en kveðst telja að málin sem berast á borð hennar kunni að vera þyngri og erfiðari nú en áður. Bendir Marta á að úrvinnsla barnaverndarmála heyri ekki undir lögreglu með beinum hætti, aðallega sinni hún tilkynningarskyldu samkvæmt lögum.

Segir Marta að aðkoma lögreglu að barnaverndarmálum sé margskonar; lögreglumenn í útkalli telji oft að rétt sé að kalla til barnaverndaryfirvöld vegna aðstæðna á vettvangi. Lögregla er einnig kölluð til aðstoðar barnaverndaryfirvöldum til að tryggja öryggi starfsmanna þeirra og annarra sem hlut eiga að máli og þá er lögregla kölluð til þegar grípa þarf til þvingunarúrræða.

Tilkynningar í tölum

2.455 tilkynningar bárust barnaverndarnefndum landsins á fyrsta ársfjórðungi 2010.

44,3% tilkynninga vörðuðu áhættuhegðun barna.

92,5% fjölgun varð milli ára á tilkynningum sem vörðuðu andlegt ofbeldi.

54,7% fjölgun varð milli ára á tilkynningum um ætlaða vímuefnaneyslu barns.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert