Evrópuþingið vill aðildarviðræður sem fyrst

Húsakynni þings Evrópusambandsins í Strassborg.
Húsakynni þings Evrópusambandsins í Strassborg.

Evrópuþingið sendi frá sér ályktun í dag þar sem hvatt er til þess að hafnar verði viðræður við Ísland um aðild landsins að Evrópusambandinu sem fyrst. Þingið fagnaði því ennfremur að leiðtogaráð ESB skyldi leggja blessun sína yfir viðræður þann 17. júní síðastliðinn. Bloomberg fréttaveitan greinir frá þessu í dag.

Þó er lögð áhersla á það af Evrópuþinginu að Íslendingar verði að „gera meira“ til þess að uppfylla reglur ESB og þ.m.t. þær sem snúa að innistæðutryggingum. Eru Íslendingar hvattir til þess að ná sáttum við bresk og hollensk stjórnvöld um endurgreiðslur vegna Icesave.

Evrópuþingið segir í ályktun sinni að endurgreiðsla Icesave myndi „endurreisa traust á getu Íslands til þess að standa við skuldbindingar sínar“ og auka stuðning almennings á Íslandi og innan ESB við aðild landsins.

Fram kemur í frétt Bloomberg að áhugi Íslendinga á inngöngu í ESB hafi dregist mjög saman síðan sótt var um aðild að sambandinu á síðasta ári og að mikill meirihluti landsmanna sé nú andvígur aðildinni. Einnig er sagt frá því að þingmenn úr fjórum af fimm stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á Alþingi hafi kallað eftir því að umsóknin yrði dregin til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert