Fréttaskýring: Lögin stangast á um sjúkdómatryggingar

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi sjúkdómatryggingabætur tekjuskattsskyldar í fyrradag en slíkar bætur greiðast í einu lagi ef einstaklingur greinist með tiltekinn alvarlegan sjúkdóm. Ekki þarf að uppfylla nein önnur skilyrði eins og að sýna fram á tekjumissi eða útlagðan kostnað að neinu leyti.

Tryggingafélögin, ásamt ýmsum hagsmunasamtökum sjúklinga, segja lögin óskýr í þessum efnum og telja löggjöfina orka tvímælis.

Bæturnar voru dæmdar tekjuskattskyldar á grundvelli 7. gr. tekjuskattslaga en þar má finna upptalningu á skattskyldum tekjum. Í þeirri upptalningu eru skaðabætur og vátryggingafé vegna sjúkdóms nefndar sérstaklega og féllst dómurinn á þau lagarök og dæmdi á grundvelli þess ákvæðis.

Féllst ekki á lagarökin

Málið kom til kasta dómstóla eftir að ríkisskattstjóri í fyrsta skipti í 10 ár lagði tekjuskatt á sjúkdómatryggingabætur sem kona ein fékk greiddar. Hún höfðaði mál og voru lagarök hennar þau að í 28. gr. sömu laga er einnig talið upp það sem ekki telst til tekna og er því undanþegið tekjuskatti. Þar er talinn upp sá eignaauki sem verður vegna greiðslu líftryggingarfjár. Af hálfu konunnar var byggt á að sjúkdómatryggingabætur féllu undir líftryggingarfé því lög um vátryggingarsamninga segja að þegar rætt er um líftryggingu sé einnig átt við heilsutryggingu án uppsagnarréttar, sem er sú trygging sem um var deilt í málinu.

Sjúkdómatrygginguna bæri því að meðhöndla sem líftryggingu að lögum og væri þannig undanþegin tekjuskatti skv. tekjuskattslögunum.

Þá benti hún á áratugarlanga skattaframkvæmd en héraðsdómur féllst ekki á nein rök hennar og dæmdi bæturnar skattskyldar.

Ekki skoðað sem skattur

Tryggingarfélögin seldu sjúkdómatryggingar á þeim forsendum að bæturnar væru skattfrjálsar enda í takt við áratugarlanga framkvæmd skattayfirvalda. Í vetur leituðu því tryggingarfélögin ásamt ýmsum hagsmunasamtökum sjúklinga til efnahags- og skattanefndar.

Ögmundur Jónasson er einn nefndarmanna sem tryggingarfélögin leituðu sérstaklega til og fóru þess á leit við hann að löggjöfin yrði samræmd til að gera bæturnar skattfrjálsar.

„Þegar við skoðum þetta og löggjafinn skoðar þetta, þá er það ekki skoðað einvörðungu sem skattlagning á sjúkt fólk, heldur er þetta skoðað út frá því hvert við erum að stefna með okkar heilbrigðiskerfi almennt. Þar höfum við byggt á því að við erum með kerfi sem er fyrir alla og ég hygg að það sé ekki vilji til þess í samfélaginu að fara með þetta kerfi út á svona einkavæddar brautir,“ segir Ögmundur sem kveður mikla mismunun að finna í einkavæddu heilbrigðistryggingakerfi.

„Fólki er mismunað þannig að þeir sem eru með lítil skaðleg erfðagen fá betri kjör en hinir sem hafa slíkar byrðar í sálu og skrokk. Þannig er fyrir hendi mismunun inni í einkavæddu kerfi. Það er því spurning hversu langt menn vilja bera þá mismunun inn í þjóðfélagið og skattkerfið,“ segir Ögmundur en skattanefnd Alþingis mun skoða málið að loknu sumarleyfi. „Við munum fara yfir þetta með hliðsjón af þessum dómi og því hvað menn telja rétt í þessum efnum,“ segir Ögmundur.

ÓHUGUR Í NORÐMÖNNUM

Taldar skattfrjálsar

Guðmundur Örn Gunnarsson, forstjóri VÍS, segir sérfræðinga sem fyrirtækið leitaði til hafa talið bæturnar skattfrjálsar. „Skilningur okkar á þeim plöggum sem við höfum frá endurskoðendum og öðrum sérfræðingum í skattamálum á þessum tíma var að þetta væri sambærilegt við líftryggingar eins og annars staðar á Norðurlöndum þar sem sambærilegar tryggingar eru seldar með þessum hætti og enn frekar með vátryggingarsamningalögum sem tóku gildi 2006,“ segir Guðmundur sem telur vilja löggjafans þann að undanþiggja sjúkdómatryggingar frá tekjuskatti.

„Þegar tekjuskattslögin voru sett var þessi sjúkdómatrygging ekki til. Ég er alveg viss um það að hefði þessi trygging verið til þegar lögin voru sett þá hefði sjúkdómatrygging verið undanþegin.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert