Vilja hækka hátekjuskatt

Meðal tillagna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um breytingar á íslenska skattkerfinu, er að fækka skattþrepum í tekjuskatti úr þremur í tvö og að efra þrepið nái til tekna yfir 4,5 milljónum króna, jafnvirði 375 þúsund króna á mánuði.

Samkvæmt núgildandi lögum greiða launþegar 37,22% af fyrstu 200.000 krónunum í staðgreiðslustofn á mánuði, 40,12% af næstu 450.000 krónum og 46,12% af stofni umfram 650.000 krónur á mánuði.

Í skýrslu, sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur gert fyrir fjármálaráðuneytið, segir að  tekjuskattur einstaklinga sé með mjög háan persónuafslátt og þess vegna mikla stighækkun þegar komið sé yfir skattleysismörk á sama tíma og mjög fáir skattgreiðendur séu í neðsta og efsta skattþrepinu.

Til að auka stighækkun og skatttekjur, að teknu tilliti til þess hversu erfitt væri að lækka persónuafsláttinn, leggur sjóðurinn  til að skattstigin verði tvö, 37,2% eins og nú og 47,2% eins og nú er. Þetta mundi auka skatttekjur um 0,25% af vergri landsframleiðslu eða um tæpa 4 milljarða króna.

Sjóðurinn gerir aðra tillögu,  sem yki skatttekjur meira eða um 0,4% af vergri landsframleiðslu, sem héldi þremur þrepum en hefði minni stighækkun.

Sjóðurinn leggur einnig til að fjármagnstekjuskattur hækki úr 18% í 20% en sú hækkun myndi auka skatttekjur um 0,3% af landsframleiðslu. Sú aukning leiddi einnig, að mati sjóðsins, til þess að samanlög skattlagning á arði yrði mjög nálægt lægra þrepi í tekjuskatti einstaklinga, sem myndi draga úr hvata til skattaskipulagningar.

Tillögur sjóðsins, yrði farið að þeim öllum, myndu skila íslenska ríkinu auknum tekjum upp á 2,03% af vergri landsframleiðslu, eða sem svarar til rúmlega 30 milljarða króna á ári.

Helstu tillögur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert