Starfsemi Avant óbreytt fyrst um sinn

Skrifstofur Avant við Suðurlandsbraut.
Skrifstofur Avant við Suðurlandsbraut. mbl.is/Jón Pétur

Friðjón Örn Friðjónsson, formaður bráðabirgðastjórnar Avant, segir að starfsemi fyrirtækisins verði óbreytt fyrst um sinn. Engin breyting hafi verið gerð á starfsmannahaldi og þá verði reynt að huga að hagsmunum viðskiptavina Avant eins og kostur sé. Fyrsti fundur stjórnarinnar fer fram í dag.

„Mitt hlutverk núna, á fyrstu dögum þessa starfs, er að setja mig inn í fjárhagslega stöðu fyrirtækisins, til þess að vera í stakk búinn að taka ákvarðanir til hagsbóta fyrir félagið,“ segir Friðjón í samtali við mbl.is.

Friðjón segir að lögum samkvæmt hafi stjórnin þrjá mánuði til þess að stjórna félaginu.

„Ég mun halda minn fyrsta stjórnarfund í dag hjá félaginu. Við erum í upplýsingaöflun og höldum rekstri félagsins áfram, eins og verið hefur,“ segir hann.

Friðjón bendir á að á meðan þessi skipan mála sé, þá megi segja að það gildi þau sjónarmið sem eigi við þegar um greiðslustöðvun sé að ræða.

„Það er búið að slá skjaldborg um félagið. Það verður ekki gengið að því á meðan þessi skipan mála er. Það er verið að gefa okkur í bráðabirgðastjórninni ráðrúm til þess að endurmeta stöðu félagsins, þá einkum í fjárhagslegu tilliti. Og huga að leiðum fyrir fyrirtækið til þess að starfa áfram,“ segir hann.

„Þarna er þrautþjálfað fólk sem er og á að vera í stakk búið að leiðbeina viðskiptavinum félagsins. Það verður auðvitað reynt að huga að að hagsmunum þeirra, eins og frekast er kostur í þeirri vinnu sem framundan er,“ segir Friðjón.

Spurður nánar út í næstu skref fyrirtækisins, t.d. varðandi útsendingu greiðsluseðla, þá segir Friðjón að hann geti ekki svarað því að svo stöddu. „Ég bið um ráðrúm til þess að átta mig á stöðinni og taka vonandi réttar ákvarðanir með hagsmuni allra þeirra sem eigi hagsmuna að gæta í tengslum við þessa starfsemi. Bæði starfsfólks og þeirra lántakenda sem eru í viðskiptasambandi við félagið. Það verður reynt að huga að hagsmunum allra þessara aðila,“ segir hann í samtali við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert