Grasrótin í VG ánægð

Guðfríður Lilja og Atli Gíslason vildu ógilda samninginn við Magma …
Guðfríður Lilja og Atli Gíslason vildu ógilda samninginn við Magma Energy. Jakob Fannar Sigurðsson

Grasrótin í Vinstri grænum er sátt við málamiðlunina í Magma-deilunni að sögn Atla Gíslasonar, þingmanns VG. Atli leggur áherslu á að málamiðlunin sé áfangi í málinu og að of snemmt sé að gera það upp á þessari stundu. Hann sé sjálfur sáttur við lendinguna.

„Við náðum farsælli lausn í málinu. Við Guðfríður Lilja [Grétarsdóttir] höfum haft erindi sem erfiði í þessari glímu.“

- Telurðu að þið Guðfríður Lilja hafið haft fullnaðarsigur í málinu?

„Við lítum ekki þannig á málið. Við hittumst og náðum málamiðlun í málinu. Þannig að ég er ekkert að lýsa því yfir. Við höfðum allavega erindi sem erfiði.“

Að leggja upp í ákveðna vegferð

- Þið lýstuð því bæði yfir um helgina að þið gætuð ekki hugsað ykkur að styðja stjórnina nema það næðist farsæl lending í málinu. Er sú niðurstaða sem nú liggur fyrir viðunandi lausn í deilunni?

„Við erum að leggja upp í ákveðna vegferð eins og fram kemur í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og við skulum bara sjá til hvar sú vegferð endar.“

- Þannig að þetta eru ekki málalok heldur áfangi?

„Það á að fara af stað umtalsverð vinna í kringum orkuauðlindirnar og skoðun á Magma-málinu sem sérstöku máli og síðan stendur til að endurskoða lagaumhverfið í kringum náttúruauðlindir, orkuauðlindir og orkuveitur. Það er allt of snemmt að tjá sig nokkuð um það. Það á eftir að taka margar ákvarðanir á næstu vikum og mánuðum í þessu máli. En þetta eru ákveðin tímamót. Ég vil líka segja að þetta sýnir mér lýðræðislegan styrk ríkisstjórnarinnar.“

- Hvernig þá?

„Með því að leiða mál til lykta, erfið mál.“

Sýnir styrk en ekki veikleika stjórnarinnar

- Hvað segirðu um þá gagnstæðu skýringu að deilan varpi ljósi á djúpstæðan ágreining ríkisstjórnarflokkanna í lykilmálum?

„Það var ágreiningur um þetta málefni. Það eru ekki mörg málefni sem er ágreiningur um. Við erum samstiga í miklum meirihluta mála. Það eru ákveðin mál sem hafa reynst okkur erfið, þetta mál og umsókin að ESB.

En ríkisstjórnin hefur almennt verið samstiga. Það er mín niðurstaða. Hún hefur almennt verið samstiga í þeim erfiðu verkefnum sem hún hefur verið í. Það er óhjákvæmilegt að það geti komið upp ágreiningur í grundvallarmálum. Að auðlindir séu í sameign þjóðarinnar er kjarnaatriði í stefnu Vinstri grænna og það er líka stórt atriði í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þannig að ég tel mig hafa verið að fylgja henni eftir.“

Jákvæð skilaboð frá grasrótinni

- Nú hefur grasrótin beitt þingmenn flokksins þrýstingi í málinu síðustu daga. Telurðu að hún sé sátt við niðurstöðuna?

„Ég tel svo vera. Allavega hef ég fengið skeyti í dag þess efnis. Ég er í ágætum tengslum við grasrótina,“ segir Atli Gíslason.

Atli vill aðspurður ekki tjá sig um hvenær endanleg lausn fáist í málið heldur vísar þess í stað í tímaáætlun ríkisstjórnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert