Moody's metur horfur neikvæðar

Moody's metur lánshæfishorfur Íslands neikvæðar.
Moody's metur lánshæfishorfur Íslands neikvæðar. Nærmynd

Matshæfisfyrirtækið Moody's metur horfur fyrir lánshæfiseinkunn Íslands neikvæðar í ljósi dóms Hæstaréttar um gengislánin, að því er segir í frétt frá Bloomberg fréttastofunni. Lánshæfismat íslenska ríkisins nú er Baa3 sem er neðsta þrep svonefnds fjárfestingaflokks.

Í frétt Bloomberg segir m.a. að dómur Hæstaréttar frá 16. júní um gengislánin geti mögulega valdið miklu tapi bankanna og krafist þess að ríkið komi bankakerfinu til hjálpar. Horfurnar fyrir lánshæfiseinkunnina hafa verið stöðugar til þessa.

„Ekki er enn vitað hvað bankakerfið mun tapa miklu vegna dómsins sem féll nýlega en það er ljóst að Ísland stendur enn frammi fyrir verulegri áhættu hvað varðar efnahagslega og fjármálalega endurreisn,“ sagði Kathrin Muehlbronner, helsti sérfræðingur Moody's um Ísland.

Moody's nefndi það einnig að Íslendingum hafi ekki tekist að leysa úr ágreiningi við Breta og Hollendinga vegna  Icesave-málsins.

Í tilkynningu  Moody's segir, að það myndi á móti hafa jákvæð áhrif á horfur um lánshæfismat Íslands ef vísbendingar sjáist um varanlegan efnahagslegan bata og að það takist að greiða úr þeim óvissuþáttum, sem nú er við að glíma. 

Moody's breytti síðast lánshæfismati fyrir íslenska ríkið 23. apríl sl. en þá var horfum fyrir matið breytt úr neikvæðum í stöðugar.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert