Traktoratorfæra í tuttugu gráðum

Fjöldi fólks fylgdist með torfærunni í dag.
Fjöldi fólks fylgdist með torfærunni í dag. Sigurður Sigmundsson

Traktoratorfærukeppni fór fram á Flúðum í dag. Keppt var í um tuttugu gráðu hita að viðstöddum um sex þúsund áhorfendum. Keppnin hefur verið haldin um hverja Verslunarmannahelgi í rúman áratug og nýtur talsverðra vinsælda.

Tólf keppendur tóku þátt og þeir komu víða að. Traktorarnir sem keppt er á eru flestir þrjátíu til fjörutíu ára gamlir og eru allir framdrifslausir. Reglur keppninnar kveða á um að afl traktoranna megi ekki vera yfir fimmtíu hestöfl. Margir breyta þó upprunalegum vélum á margan hátt.

Ölvir Karl Emilsson hampaði titlinum í ár. Hann ók á Zetor 30110, árgerð 1971. Einar Örn Sigurjónsson á David Brawn, árgerð 1980, varð annar og í þriðja sæti lenti Helgi Jónsson á Ferguson 35, árgerð 1958. Jón Þór Jónsson hlaut verðlaun fyrir glæsilegustu tilþrifin.

Keppnin er sannkallað drullubað, en hún er háð í fyrrum árfarvegi Litlu–Laxár. Keppt er um Jötunvélabikarinn sem gefin er af Jötunvélum ehf. á Selfossi. Einnig eru veitt verðlaun frá veitingastöðum á Flúðum og verktakafyrirtækjum í Hrunamannahreppi. Það er Björgunarfélagið Eyvindur sem stendur fyrir keppninni.

Sigurvegarar keppninnar í dag.
Sigurvegarar keppninnar í dag. Sigurður Sigmundsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert