„Það eina rétta í stöðunni“

Ásta S. Helgadóttir fyrrverandi forstöðumaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.
Ásta S. Helgadóttir fyrrverandi forstöðumaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Kristinn Ingvarsson

„Þetta var það eina rétta í stöðunni,“ sagði Ásta Sigrún Helgadóttir, fyrrverandi forstöðumaður Ráðgjafastofu um fjármálheimilanna, um ákvörðun Runólfs Ágústssonar að segja af sér sem umboðsmaður skuldara.

Ásta óskaði fyrir helgi eftir upplýsingum frá félagsmálaráðuneytinu um ráðningu í embætti umboðsmanns skuldara. Hún óskaði eftir rökstuðningi ráðherra fyrir ráðningunni og eins vildi hún fá að sjá hæfnismatið sem lá til grundvallar ráðningunni. Ásta sagði í morgun að hún væri ekki búin að fá gögnin, en bréfi sínu óskaði hún eftir að fá þau eigi síðar en 10. ágúst.

Ásta sótti um starf umboðsmanns skuldara og var hún og Runólfur talin hæf til að gegna því, en Runólfur þó hæfari. Ásta sagðist ekki geta svarað því strax hvort hún hefði enn áhuga á að gegna starfinu. Ráðuneytið væri ekki búið að taka ákvörðun um hvernig brugðist yrði við þessari stöðu. Það lægi t.d. ekki fyrir hvort staða umboðsmanns skuldara yrði auglýst að nýju. Hún sagðist heldur ekki geta svarað því hvort hún myndi sækja um ef auglýst yrði að nýju.

Vandséð er hins vegar hvernig félagsmálaráðherra getur gengið framhjá Ástu Sigrúnu ef það tekur ákvörðun um að auglýsa ekki stöðuna að nýju. Þar sem aðeins tveir umsækjendur voru taldir hæfir til að gegna starfinu, þ.e. Runólfur og Ásta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert