Sjónvarpslaust á Austurlandi

Vopnafjörður.
Vopnafjörður. Jón Sigurðarson

Bilun hefur aftur komið upp í stofnneti Mílu á norðausturlandi, en álíka bilun varð í gærkvöldi með þeim afleiðingum að víðtækar truflanir urðu á sjónvarps- og útvarsútsendingum fram undir morgun. Að sögn Sigurrósar Jónsdóttur, deildarstjóra lausna hjá Mílu, virðist sem annar búnaður hafi gefið sig í kjölfar bilunarinnar í gær, í sömu símsstöð á Vopnafirði.

„Ástæðan fyrir því að það tók svo langan tíma að laga þetta í gær var að það þurfti að senda eftir varahlut frá Reykjavík. Fyrst þarf að greina bilunina og svo fá varahlutinn sendan austur og á staðinn, þetta tekur allt sinn tíma þeegar það eru þessar vegalengdir."

Fjarskipti ættu að vera að mestu lagi í lagi á svæðinu að sögn Sigurrósar þar sem bæði sími og internet er einnig á varaneti þegar bilun verður í stofnnetinu, þó sé hugsanlegt að eitthvað hægi á netsambandi þar til viðgerð lýkur. „En þetta hefur víðtæk áhrif á svæðinu eins og í gær því þetta er í stofnnetinu og nær alveg að Kirkjubæjarklaustri og austur fyrir að Vopnafirði." Fjölmörg heimili verða því fyrir biluninni, sem kom upp rétt fyrir kvöldfréttir Sjónvarps.

Varahlutur er farinn af stað frá Reykjavík, og var raunar farinn af stað áður en bilunin varð þar sem ákveðið var í  gær að panta fleiri varahluti í kjölfar bilunarinnar. Viðgerð ætti því að ekki að taka eins langan tíma nú og hún gerði í gær að sögn Sigurrósar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert