Boða flug til Húsavíkur

Flugstöðin á Húsavík.
Flugstöðin á Húsavík.

Vegna boðaðs verkfalls slökkviliðsmanna á morgun hefur Flugfélag Íslands gert ráðstafanir til að fljúga áætlunarflug sitt til Húsavíkur í stað Akureyrar ef til verkfalls kemur. Flugfélagið flutti Akureyrarflug einnig til Húsavíkur síðasta föstudag vegna verkfalls LSS.

Gerðar hafa verið ráðstafanir til að flýta fyrstu tveimur brottförum föstudagsins þannig að þær lendi áður en til boðaðs verkfalls kemur en aðrar brottfarir þann dag munu verða til Húsavíkur ef til verkfalls kemur. Farþegar munu verða fluttir með hópferðabílum milli flugvalla á Akureyri og Húsavík, segir í tilkynningu frá Flugfélagi Íslands.

„Farþegar sem vilja mæta beint á flugvöllinn á Húsavík hafa kost á því en þeim er bent á að hafa samband við Flugfélag Íslands á Akureyri í síma 4607000. Haft verður samband við þá farþega sem eiga bókað á föstudaginn og þeir látnir vita um þær breytingar sem verða á þeirra flugi, farþegar geta jafnframt haft samband við þjónustuver Flugfélags Íslands í síma 5703030.

Flugfélag Íslands vonast til að aðilar nái saman þannig að hægt verði að aflýsa verkfalli en kostnaður félagsins og óþægindi farþega eru mikil vegna deilu sem Flugfélag Íslands á ekki aðild að," segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert