Snýst ekki um kennitölurnar

„Hver kennitalan er á rannsóknarleyfunum er algjört aukaatriði,“ segir Jón Þórisson, einn þremenninganna sem standa fyrir undirskriftasöfnun til að skora á stjórnvöld að koma í veg fyrir sölu HS Orku til Magma Energy.

Jón, ásamt Björk Guðmundsdóttur og Oddnýju Eir Ævarsdóttur, sendu frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem þau varpa fram spurningu á hversu mörgum landsvæðum Magma í Svíþjóð fái rannsóknarleyfi og hugsanlega virkjanaleyfi, ef af sölunni á HS Orku verður.

Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að um slíkt væri ekki að ræða þar sem rannsóknarleyfin væru ekki yfirfæranleg heldur gefin út á ákveðna kennitölu.

„Við erum ekkert að tala um það að Magma sé að eignast rannsóknarleyfin sjálf, við erum að benda á að með kaupunum á HS Orku eignast Magma hlut í t.d. Suðurorku og Suðurorka er með rannsóknarleyfi,“ segir Jón.

Hann segir Júlíus vera með hártoganir og að í fréttatilkynningunni sé ekki fullyrt að Magma eignist rannsóknarleyfin.

„En með því að verða hluthafar í Samorku fær Magma náttúrulega yfirráð yfir þessum rannsóknarleyfum, í samræmi við sinn eignarhlut.“

Jón segir umhugsnunarefni hversu mörgum fyrirtækjum Magma mun eignast hlut í verði af kaupunum.

„Við erum að velta fyrir okkur hvaða áhrif Magma muni hafa hér á landi ef kaupin ganga í gegn. Þetta takmarkast ekkert við HS Orku því HS Orka á hlut í allskonar fyrirtækjum og þetta eru allt saman hlutir sem Magma mun geta ráðstafað að vild í gegnum eignarhald sitt á HS Orku.“

Meðal þeirra fyrirtækja sem HS Orka á hlut í eru Samorka, Bláa lónið, Vistorka og Keilir ehf.

Björk Guðmundsdóttir
Björk Guðmundsdóttir Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert