Mesta fólksfækkun í 122 ár

Landsmönnum fækkaði um 0,4% á milli ára
Landsmönnum fækkaði um 0,4% á milli ára mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landsmönnum hefur ekki fækkað meira á milli ára í 122 ár eða síðan árið 1888 þegar fólksflutningarnir til Vesturheims voru í hámarki. Landsmönnum fækkaði um 0,4% á fyrri hluta ársins og eru landsmenn nú 318.006 talsins samanborið við 319.246 á sama tíma fyrir ári.

Fjallað er um tölur um íbúafjölda á Íslandi í Morgunkorni Íslandsbanka en Hagstofan birti í morgun nýjar upplýsingar um mannfjöldann.

Á sama tíma fyrir ári mældist nær engin breyting í fjölda landsmanna á milli ára. Hafði þá stöðvast sú mikla fólksfjölgun sem hér var á árunum fyrir hrun. Þannig var fólksfjölgunin ef miðað er við mitt ár tæplega 2,6% frá árinu 2005 til 2008.

„Þrátt fyrir fækkunina nú hefur fólksfjölgunin í landinu verið veruleg ef litið er til síðasta áratugar og umfram það sem sést hefur síðustu áratugi þar á undan. Að meðaltali hefur landsmönnum á því tímabili fjölgað um 1,2% á ári. Frá árinu 2000 hefur fólksfjöldinn í landinu farið úr því að vera ríflega 281 þúsund í ríflega 318 þús.

Þessi fækkun mannfjöldans síðastliðið ár kemur vitaskuld ekki á óvart miðað við þær aðstæður sem ríkja hér á landi í efnahagsmálum og þá sér í lagi að meirihluti þeirra sem flytjast frá landinu eru erlendir ríkisborgarar. Á árunum fyrir hrun varð mikil fólksfjölgun hér á landi í kjölfar þess að erlent vinnuafl sótti í miklum mæli hingað til lands til að stunda vinnu og njóta betri efnahagslegra skilyrða en voru til staðar í heimalandinu," segir í Morgunkorni.

Kreppan breytir kynjahlutföllum á Íslandi

Stærsti hluti þessa vinnuafls sem hingað kom  til lands á uppgangstímanum fyrir hrun voru karlmenn og komu þeir til starfa í byggingariðnaðinum. Nú er það líka svo að karlmönnum fækkar og nam sú fækkun 1,1% frá miðju ári í fyrra til miðs árs í ár. Hafði þeim þá fækkað um 1,0% árið á undan. Konum hefur hins vegar fjölgað á sama tíma eða um 0,3% ef litið er til tímabilsins frá miðju ári í fyrra til miðs árs í ár og um  1,0% ef litið er til ársins þar á undan. Kreppan er því að breyta kynjahlutfalli þjóðarinnar, samkvæmt Morgunkorni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert