Slökkviliðið undirbýr menningarnótt af kappi

Mikil mannþröng er jafnan í miðborginni á menningarnótt og því …
Mikil mannþröng er jafnan í miðborginni á menningarnótt og því öryggisatriði að slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn geti haf aukinn viðbúnað.

„Nú þegar samningar hafa náðst þá frestast verkfallsaðgerðir þannig að við förum á fullt í það núna að auka okkar viðbúnað og munum leitast við að ná sama viðbúnaði og undanfarin ár. Þetta er náttúrulega stuttur fyrirvari, en við reynum okkar besta," segir Birgir Finnsson sviðsstjóri útkallssviðs hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Fyrirséð var að engin aukavakt yrði meðal slökkviliðs- og sjúkraflutningsmanna á menningarnótt þar sem ekki stefndi í að samningar næðust fyrir þann tíma. Undanfarin ár hafa sjúkrabílar verið til taks á hlaupaleiðinni í Reykjavíkurmaraþoninu auk þess sem aukavakt er í miðborginni um kvöldið. Ef samningar hefðu ekki náðst hefði vaktin í Skógarhlíð aðeins sinnt neyðartilfellum.

Birgir segir nú alveg ljóst að aukinn viðbúnaður verði í miðborinni á menningarnótt. „Ef allt gengur upp hjá okkur verðum við með mótorhjól og þegar mest lætur verðum við með tvö í bænum." Á þeim eru slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn sem eru með sjúkrabúnað af ýmsu tagi, m.a. hjartastuðtæki auk slökkvitækis. „Þessi hjól eru búin forgangsljósum og komast mun hraðar fram heldur en bílar í svona umferðarteppu og mannþröng. Þau hafa margsannað sig við þessar aðstæður."

Nú er að sögn Birgis verið að hringja út og manna vaktir á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert