Heilsugæslan til sveitarfélaganna

Nefndin vill að heilsugæslan verði færð til sveitarfélaganna
Nefndin vill að heilsugæslan verði færð til sveitarfélaganna mbl.is/Brynjar Gauti

Nefnd, sem fjallar um eflingu heilsugæslunnar,  leggur til í nýrri skýrslu, að hafinn verði undirbúningur að flutningi verkefna heilsugæslu til sveitarfélaganna innan næstu fimm ára.

Áhugi á flutningi heilsugæslu og jafnvel annarra þátta heilbrigðisþjónustu frá ríki til sveitarfélaga hefur vaxið í kjölfar sameiningar sveitarfélaga og vilja til þess að treysta sveitarstjórnarstigið, segja skýrsluhöfundar.

„Góð reynsla af þjónustusamningum ríkisins við Akureyrarbæ og Hornafjörð hefur sýnt að heppilegt er að flétta saman skipulag heilsugæslu og félagslegra þjónustu. Samband íslenskra sveitarfélaga er því fylgjandi að heilsugæsla fylgi með flutningi málefna fatlaðra og aldraðra til sveitarfélaga. Ganga verður úr skugga um hvort forsendur séu fyrir því að hrinda þessum flutningi í framkvæmd innan næstu fimm ára," segir í nýrri skýrslu um eflingu heilsugæslunnar.

 Heilsuverndarstarf verði eflt á landsvísu. Heilbrigðisþjónustan hefur lagt vaxandi áherslu á forvarnir, heilsuvernd og fræðslu í því skyni að fyrirbyggja sjúkdóma og stuðla að heilbrigðum lífsháttum. Til þess að heilsugæslan geti sinnt hlutverki sínu verður hún að taka þátt í margþættri samvinnu og þverfaglegu samstarfi við fjölda aðila utan lands sem innan.

Nýlega hefur verið komið á fót Þróunarstofu heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu. Mikilvægt er að þessi starfsemi nýtist allri heilsugæsluþjónustu í landinu. Annað hvort að hún verði í nánu samstarfi við fjölmargar stofnanir og aðila í þjóðfélaginu eða að Þróunarstofa heilsugæslu verði hluti af sameinaðri stofnun landlæknisembættis og Lýðheilsustöðvar.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert