Valnefnd metur umsækjendur um Íbúðalánasjóð

mbl.is/Sverrir

Stjórn Íbúðalánasjóðs hefur ákveðið að skipa þriggja manna valnefnd sem mun leggja mat á umsækjendur um stöðu framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs. Ekki hefur náðst samstaða innan stjórnarinnar um ráðninguna.

Er þetta gert samkvæmt tillögu Árna Páls Árnasonar, félags- og tryggingamálaráðherra. Sendi félagsmálaráðuneytið bréf til stjórnarformanns Íbúðalánasjóðs þar sem lagt er til að skipuð verði valnefnd sem leggi mat á umsækjendur með sama hætti og gert var þegar ráðið var í embætti seðlabankastjóra á síðasta ári. Segir í bréfinu að mikilvægt sé að hafið sé yfir vafa, að hæfasti umsækjandinn verði valinn og það val byggi einvörðungu á faglegum og efnislegum forsendum.

Fjallað var um þessa tillögu á fundi stjórnar Íbúðalánasjóðs í dag.  Að loknum umræðum lagði Hákon Hákonarson, stjórnarformaður, fram þá tillögu að valnefnd yrði skipuð sem gerði tillögu til stjórnar um ráðningu framkvæmdastjóra úr hópi umsækjenda.

Stjórnin samþykkti tillöguna og einnig að eftirtaldir aðilar yrðu tilnefndir í valnefndina:

Jón Sigurðsson, lektor við Háskólann í Reykjavík
Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, lektor við hagfræðideild Háskóla Íslands
Magnús Pétursson, ríkissáttasemjari.

Í bréfi félagsmálaráðuneytisins var stungið upp á þessum þremur auk Gylfa Zoëga,  prófessor við hagfræðideild HÍ.

Elín R. Líndal lét bóka, að hún sæti hjá við afgreiðslu tillögunnar.

Guðmundur Bjarnason lét af störfum sem framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs um mitt árið og  gegnir Ásta H. Bragadóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri sjóðsins, nú starfi framkvæmdastjóra. Starfið var auglýst og sóttu 27 um. Fjórir umsækjendur voru kallaðir í viðtal: Ásta H. Bragadóttir,  Elín Sigrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri, Guðrún Árnadóttir, ráðgjafi og Yngvi Örn Kristinsson, ráðgjafi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert