Krefjast úrbóta í vegamálum

Vestfirðir
Vestfirðir Af vef Bæjarins besta

Á fundi bæjarstjórnar Vesturbyggðar í gær var samþykkt ályktun þar sem skorað var á ríkisstjórn Íslands og þingmenn Norðvesturkjördæmis að tryggja án tafar fjármagn til vegaframkvæmda á sunnanverðum Vestfjörðum. Það sé algjörlega óásættanlegt að ríkið ætlist til frekara samvinnu sveitarfélaga á Vestfjörðum á meðan sunnanverðir Vestfirðir búi við einangrun vegna takmarkaðra samgangna.

Eftirfarandi er ályktunin sem samþykkt var í gær:

„Bættar samgöngur eru nauðsynlegar forsendur fyrir hagkvæmt atvinnulíf og viðunandi afkomu heimila og fyrirtækja. Víða um landið hafa orðið miklar vegabætur síðustu ár, en betur má ef duga skal.

Á sunnanverðum Vestfjörðum er staðan sú að úrbætur í samgöngumálum hafa ekki þróast eins og í öðrum landshlutum. Vegurinn um Barðastrandasýslu er í hörmulegu ástandi og öryggi vegfarenda fyrir borð borið. Áætluðum vegabótum á þeirri leið hefur síendurtekið verið slegið á frest vegna tafa og kærumála og samfélaginu þannig haldið í gíslingu vegna úrræðaleysis stjórnvalda.

Leiðin um Dynjandis-og Hrafnseyrarheiðar eru lokaðar stóran hluta ársins vegna snjóa og nú í sumar hefur ástand þeirra vega farið snarversnandi og vart bjóðandi hvorki íbúum né ferðamönnum í siðmenntuðu þjóðfélagi á 21.

öld, ekki síst í ljósi þeirra staðreynda að lögð hefur verið aukin áhersla á uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu. Sú atvinnugrein nær engan veginn að verða sá vaxtarbroddur sem mögulegt er við núverandi ástand samgangna á svæðinu.

Í því ljósi gerir bæjarstjórn Vesturbyggðar kröfu til þess að við endurskoðun Samgönguáætlunar verði fullt tillit tekið til þessara staðreynda. Það er algjörlega óásættanlegt að ríkisvaldið ætlist til frekara samstarfs milli sveitarfélaganna á Vestfjörðum á meðan sunnanverðir Vestfirðir eru einangraðir vegna takmarkaðra samgangna. Slíku samstarfi verður ekki komið á miðað við núverandi aðstæður í vegakerfinu.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar krefst þess að ríkisstjórn Íslands og þingmenn Norðvesturkjördæmis tryggi strax fjármagn til viðhalds og nýframkvæmda á svæðinu."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert