Nýkomin þegar skjálftinn reið yfir

Íbúar í Christchurch við tiltekt.
Íbúar í Christchurch við tiltekt. Reuters

Íslensk kona var nýflutt til Christchurch í Nýja Sjálandi þegar öflugur jarðskjálfti reið þar yfir um sl. helgi. „Ég var búin að vera hér í fimm daga,“ segir Sunna Viðarsdóttir í samtali við mbl.is.

Daglega mælast fjölmargir eftirskjálftar og segir Sunna að margir séu á nálum því rætt sé um að annar stór skjálfti sé í vændum. „Það er alltaf verið að lofa okkur öðrum stórum skjálfta. Að þetta hafi ekki verið sá stóri.“

Sunna bendir á að sl. nótt hafi tveir eða þrír eftirskjálftar mælst yfir fimm stig. Hún heldur hins vegar ró sinni. „Maður er samt eiginlega orðinn vanur því. Jafnvel kettirnir eru orðnir vanir því.“

Slapp vel

Sunna býr í úthverfi sem kallast Templeton, sem er rétt vestan við miðborgina. Hún segir að sitt heimili og önnur hús í hverfinu hafi sloppið mun betur heldur en mannvirki í miðborginni og í hverfunum austan við hana.

 „Mér skilst að ástandið sé verst í úthverfum austan við borgina, sem eru öll byggð á landfyllingu. Þar sem ég er stödd er eins og ekkert hafi gerst. Sundlaugin fór eitthvað smá í klessu og það brotnuðu tvö glös,“ segir Sunna sem var á ferðalagi þegar skjálftinn, sem mældist 7,1 stig, reið yfir.

„Ég heyrði það í morgun að sex af hverjum tíu húsum í Canterbury-sýslu þarfnast viðgerða,“ segir hún.

Vegir eru víða illa farnir eftir jarðskjálftann. Sunna segir að vegir í nágrenni við sig séu holóttir og sprungnir en ökufærir. Þá segist hún hafa séð nágranna sína moka leðju út úr görðunum sínum eftir skriður.

Miklar skemmdir urðu á lögnum í skjálftanum og hafa íbúar hafa verið hvattir til að sjóða neysluvatn í borginni. Sunna segir hins vegar að íbúar í Templeton sleppi við það þar sem þeir séu með eigið vatnsból.

Búið er að loka af svæði í miðborginni á meðan unnið er að því að meta skemmdir og óvíst er hvenær allt verður aftur komið í eðlilegt horf. Að sögn Sunnu var aðalgatan opnuð í dag, en hún segist þó ekki vita hvernig ástandið sé. Þá hafa skólar verið lokaðir undanfarna daga, en stefnt er að því að opna þá á morgun.

Víða eru vegir mjög illa farnir.
Víða eru vegir mjög illa farnir. Reuters
Sunna Viðarsdóttir.
Sunna Viðarsdóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert