Samfylkingin á undanhaldi

Samfylkingin.
Samfylkingin.

„Össur kveinkar sér undan rökstuddum og hnitmiðuðum málflutningi og fer þar með fyrir hópi kveinkara í Samfylkingunni sem treysta sér ekki í málefnalegar umræður,“ segir Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknar, um gagnrýni utanríkisráðherra á flokkinn. Höskuldur segir Samfylkinguna á undanhaldi.

„Það er ljóst að hún á að tækla sterkan og rökstuddan málflutning Framsóknar með yfirlýsingum og fúkyrðum. Þetta sýnir hversu langt leidd Samfylkingin er í undanhaldi sínu.

Það liggur fyrir að við framsóknarmenn höfum haft rétt fyrir okkur í veigamiklum málum eins og í Icesave-deilunni, umræðum um skuldastöðu heimilanna og hvað varðar skuldastöðu ríkissjóðs. Í staðinn fyrir að taka slaginn og svara okkur á málefnalegan hátt að þá fáum við skítkast, í takt við fúkyrðaflaum Össurar í ræðustól Alþingis í gær.“

Óeðlilegar mannaráðningar

Til orðaskiptanna kom í umræðum um frumvarp til breytinga á stjórnarráðinu en Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, komst þá svo að orði um mannaráðningar ríkisstjórnarinnar (fengið af vef Alþingis):

„Ráðningamálin hjá ríkisstjórninni eru alveg hreint til skammar. Ég ætla að minna á það að ég spurði hæstvirtan fjármálaráðherra að því á vordögum hvað væru margir starfsmenn í ráðuneytunum sjálfum. Svarið sem barst var 511 starfsmenn árið 2009. (Gripið fram í.) Eftir þá sem ráðnir hafa verið án auglýsinga árið 2010 er nú þegar um að ræða tæplega 40 einstaklinga. Það er talað um sparnað enda voru heildarútgjöld ráðuneytanna á síðasta ári árið 2009 tæpir 6 milljarðar.

Hæstvirtur utanríkisráðherra – tæpir 6 milljarðar. Ráðuneyti hæstvirts utanríkisráðherra átti af því rúman 1,1 milljarð. Það er hægt að gera mikið fyrir þessar upphæðir. Ég minni líka á að öflugan almennan vinnumarkað þarf til svo hægt sé að halda uppi svo útblásnu kerfi eins og nú er. 22.000 störf á almenna vinnumarkaðnum hafa tapast og ríkisstjórnin sér enga ástæðu til þess að skera nokkurs staðar niður.“

Enginn treystir Framsókn

Össur var harðorður í andsvari sínu og sagði Vigdísi fara með fleipur.

„Þegar þingmaðurinn kemur hér og segir að ríkisstjórninni detti ekki í hug að auglýsa eitt einasta starf — frú forseti, þessi málflutningur er ástæðan fyrir því að enginn treystir Framsóknarflokknum.“

Höskuldur Þórhallsson.
Höskuldur Þórhallsson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert