Þrír af sex flokksleiðtogum sátu kvöldverðinn

Jóhanna Sigurðardóttir og Kaj Leo Johannesen skoða ölgerð Okkara í …
Jóhanna Sigurðardóttir og Kaj Leo Johannesen skoða ölgerð Okkara í Færeyjum. mynd/Álvur Haraldsen

Þrír af sex flokksleiðtogum í Færeyjum sátu kvöldverð, sem Kaj Leo Johannesen, lögmaður Færeyja, hélt fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, í Kirkjubæ  í gærkvöldi.

Kvöldverðurinn varð fréttaefni víða á Norðurlöndum þegar Jenis av Rana, leiðtogi Miðflokksins, lýsti því yfir að hann myndi ekki mæta í kvöldverðarboðið vegna þess að Jónína Leósdóttir, eiginkona Jóhönnu, var með henni í opinberri heimsókn í Færeyjum. 

Fram kemur á vefnum olivant.fo, að auk Kaj Leo, leiðtoga Sambandsflokksins, hafi Høgni Hoydal, formaður Þjóðveldis, og John Johannesen, þingflokksformaður Jafnaðarflokksins, setið kvöldverðarboðið.

Jørgen Niclasen, formaður Fólkaflokksins, sagðist ekki hafa getað mætt vegna þess að hann var sjálfur gestgjafi í kvöldverðarboði fyrir samstarfsráðherra Norðurlanda, sem voru á fundi í Þórshöfn í vikunni. Haft er eftir Niclasen að hann hafi spurst fyrir um það hvort hann ætti að senda annan fulltrúa flokksins í boðið í Kirkjubæ en ekki fengið svar. 

Ekki lá hins vegar fyrir hvers vegna Kári P. Højgaard, formaður Sjálfstýrisflokksins, sat ekki kvöldverðarboðið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert