Lög um fjármál stjórnmálaflokka samþykkt

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Ómar

Alþingi samþykkti í dag breytingar á lögum um fjármál stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna, sem m.a. gera ráð fyrir því að auka gagnsæi fjárframlaga til stjórnmálasamtaka og jafnræði þeirra á milli.  Frumvarpið var samþykkt með 37 atkvæðum þingmanna úr öllum flokkum nema Hreyfingarinnar, sem greiddu atkvæði gegn frumvarpinu.

Í nýju lögunum er kveðið á um að ákvæði laga um framlög frambjóðanda frá einstaklingum og lögaðilum og um upplýsingaskyldu þeirra taki einnig til frambjóðenda í forsetakosningum. Einnig er kveðið á um leyfilegan hámarkskostnað frambjóðenda í forsetakjöri til kosningabaráttu en hann er um 35,5 milljónir samkvæmt lögunum. 

Jafnframt er hækkuð hámarksfjárhæð framlaga frá einstaklingum og lögaðilum til stjórnmálasamtaka og frambjóðenda úr 300.000 krónum í 400.000 krónur, sem samsvarar þeim verðlagshækkunum sem orðið hafa frá þeim tíma þegar lögin tóku gildi 1. janúar 2007 og til dagsins í dag.

Á móti gera lögin ráð fyrir, að nöfn þeirra einstaklinga, sem styrkja stjórnmálaflokka eða frambjóðendur um meira en 200.000 krónur, verði gerð opinber. Hefur því svonefnt nafnleyndargólf verið lækkað úr 300.000 krónum í 200.000 krónur hvað einstaklinga varðar. Áfram gildir, að öll framlög frá lögaðilum séu opinber.

Í yfirlýsingu frá þingmönnum Hreyfingarinnar segir m.a., að lögin geri hvorki ráð fyrir að rofin verði óeðlileg tengsl á milli viðskipta og stjórnmála né að jafnræðis verði gætt við úthlutun opinberra fjármuna. Stjórnmálasamtök og stjórnmálamenn muni áfram geta tekið við peningum frá fyrirtækjum. Þá verði flokkum og flokksmönnum heimilt að taka við peningum frá einstaklingum án þess að upplýst verði í öllum tilfellum um viðkomandi styrkveitendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert