Segja Björgvin hafa verið leyndan upplýsingum

Björgvin G. Sigurðsson.
Björgvin G. Sigurðsson. mbl.is/Kristinn

Þingmenn Samfylkingarinnar í þingmannanefnd, sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, segja að Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, hafi ekki haft undir höndum upplýsingar, sem gerðu honum kleift að leggja mat á ástand fjármálakerfisins árið 2008 áður en það hrundi. Því eigi ekki að ákæra hann fyrir saknæma vanrækslu á starfsskyldum sínum.

Þingmenn Samfylkingarinnar eru sammála meirihluta nefndarinnar um að ákæra eigi þau Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gíslasdóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra og Árna M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra.

En í ríkisstjórn Geirs H. Haarde hafi oddvitar stjórnarflokkanna tveggja, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, farið inn á valdsvið annarra ráðherra, stýrt miðlun upplýsinga og haft verkstjórn og verkaskiptingu með höndum. Þannig hafi samskipti um efnahagsmál og málefni íslensku bankanna verið takmörkuð við hóp þriggja ráðherra, forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra.

Af þessari skipan hafi leitt, að ekki var samræmi á milli lögboðins valds og raunverulegs valds viðskiptaráðherra. Að auki hafi Björgvin,   sem fór með málefni bankanna, ekki tekið þátt í fundi með Davíð Odsson, þáverandi formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands, átti í febrúar 2008 með Geir og Ingibjörgu þar sem Davíð   dró upp verulega dökka mynd af stöðu bankanna.

Þá hafi Björgvin ekki heldur fengið upplýsingar um útstreymi af Icesave-reikningum í Bretlandi í lok mars sama ár og ekki  um skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 14. apríl þar sem settar voru fram tillögur um aðgerðir til að minnka bankakerfið. 

Þá hafi Björvin ekki vitað um komu erlends sérfræðings, Andrews Gracie, á vegum Seðlabanka Íslands, en Gracie taldi inngrip stjórnvalda nauðsynlegt til draga úr stærð bankakerfisins. Þessar og aðrar upplýsingar frá Gracie voru kynntar samráðshópi um fjármálastöðugleika og forsætisráðherra með beinum hætti án þess að þær bærust Björgvin.

Einnig hafi Björvin ekki verið viðstaddur sex fundi um efnahagsmál og málefni bankanna sem nefndir séu í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar sátu ásamt fulltrúum Seðlabanka Íslands. Loks megi þess geta að Björgvin hafi hvorki vitað af samtali formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands við bankastjóra Seðlabanka Evrópu né Seðlabanka Bretlands þar sem fram kom að erlendir bankastjórar höfðu áhyggjur af alvarlegri stöðu íslenska bankakerfisins.

„Útilokun viðskiptaráðherrans náði hámarki þegar utanríkisráðherra ákvað að honum yrðu ekki kynntar aðgerðir ríkisvaldsins vegna lánabeiðni Glitnis banka sunnudaginn 28. september 2008. Áhrifaleysi viðskiptaráðherra kristallast í því að 12. ágúst lagði hann fram minnisblað fyrir ríkisstjórn sem innihélt tillögur um að efla stöðugleika fjármálakerfisins. Tillaga þessi var ekki afgreidd í ríkisstjórn. Hið sama hafði verið uppi á teningnum þegar viðskiptaráðherra kynnti oddvitum stjórnarflokkanna drög að frumvarpi til breytinga á lögum um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta snemma árs 2008," segir í greinargerð með tillögu þingmanna Samfylkingarinnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert