Anna og Alexander algengust

Á árinu 2009 var Alexander vinsælasta nafngift nýfæddra sveinbarna en Anna hjá meybörnum. Anna var einnig í efsta sæti ári áður, en Alexander tók við af Viktori sem var vinsælasta drengjanafnið árið 2008. Árið 2009 féll Viktor hins vegar í 5. sætið.

Þetta kemur fram í nýju riti Hagstofunnar. Þar kemur fram, að flestir sem fengu nafn á árinu 2009 fengu fleiri en eitt nafn. Þór var langvinsælasta annað nafn meðal sveinbarna en þar á eftir Freyr og Ingi.

Meðal meybarna voru María og Ósk vinsælustu annað nafn, en þessi nöfn voru einnig í fyrsta og öðru sæti 2009. Á eftir þeim kom stúlkunafnið Líf, sem tók við af Rós sem þriðja vinsælasta annað nafn meybarna.

Þegar litið er á allan mannfjöldann í ársbyrjun 2010 þá eru 10 efstu einnefni og fyrstu eiginnöfn þau sömu og voru í efsta sæti árið 2005. Hjá körlum er Jón vinsælasta nafnið, þá Sigurður og svo Guðmundur. Röð 10 algengustu nafna var óbreytt frá 2005 nema hvað Magnús vék úr 7. sæti fyrir Kristjáni. Hjá konum er Guðrún vinsælust, þá Anna og svo Sigríður. Röð 10 efstu nafnanna var óbreytt frá 2005.

Hagstofan segir, að meirihluti landsmanna beri fleiri en eitt nafn auk kenninafns. Þrjár vinsælustu samsetningarnar hjá körlum var Jón Þór, Gunnar Þór og Jón Ingi. Þetta voru einnig algengustu tvínefnin árið 2005.

Hjá konum voru þrjár vinsælustu samsetningarnar Anna María, Anna Margrét og Anna Kristín. Þetta voru líka algengustu tvínefnin árið 2005. Kvenmannsnafnið Anna er hins vegar afar vinsælt sem fyrsta nafn í tvínefnum. Anna var fyrri liður í sex tvínefnum af 10 algengustu.

Flestir fæðast á sumrin og haustin

Í greinargerð Hagstofunnar kemur fram að afmælisdagar á Íslandi dreifast ekki jafnt yfir árið, þar sem algengast sé, að börn fæðist að sumri til og á hausti. Fæstir eiga afmæli á vetrarmánuðum frá nóvember og fram í febrúar.

Í upphafi árs 2010 gátu flestir átt von á því að halda upp á afmælisdaginn þann 16. júlí 2010 eða 974 einstaklingar. Fæstir áttu afmælisdag á jóladag eða 666 manns og næstfæstir á gamlársdag eða 705. Einnig voru fáar afmælisveislur á annan í jólum og aðfangadag. 

Þá voru 208 einstaklingar án afmælisdags árið 2010, en þeir halda upp á hann fjórða hvert ár þann 29. febrúar.

Greinargerð um mannanöfn og talningu þeirra

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert