Spurningar um ráðherraábyrgð

Anna Margrét Guðjónsdóttir.
Anna Margrét Guðjónsdóttir.

Anna Margrét Guðjónsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, velti því fyrir sér á Alþingi í gær hvort sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra væri að brjóta gegn lögum um ráðherraábyrgð með því að taka ekki þátt í undirbúningi fyrir hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Anna Margrét sagðist hafa spurst fyrir um það hvort Jón Bjarnason, landbúnaðarráðherra, og ráðuneyti hans tæki þátt í að undirbúa Ísland undir hugsanlega þátttöku í Evrópusambandinu. Ráðherra hafi hins vegar staðfest í svari, að ráðuneytið sem hann fer fyrir hafi ákveðið að taka ekki þátt í þeim undirbúningi.

„Ég velti því fyrir mér að ef til aðildar Íslands að Evrópusambandinu kemur og ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála hefur staðfastlega ákveðið að taka ekki þátt í undirbúningi þá blasir það við að íslenskir bændur og útgerðarmenn og allir þeir sem vinna við sjávarútvegs- og landbúnaðarmál standa langt að baki öðrum stéttum í þessu samfélagi, ég tala ekki um að baki kollega sinna í Evrópu.

Því spyr ég, frú forseti: Er tilefni til að hafa áhyggjur af því að hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra gangi á svig við 2. og 4. gr. laga um ráðherraábyrgð eða er ráðherrum í sjálfsvald sett að ákveða samkvæmt eigin geðþótta að málefni henti þeim ekki og því geti þeir haldið málaflokkum sínum utan við eðlilega þróun?," sagði Anna Margrét.

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að tala yrði varlega um ráðherraábyrgð. Vildi hún vita hvort Anna Margrét teldi að það varðaði embættismissi, sektum eða fangelsi að vera ekki sammála Samfylkingunni um nauðsyn þess að ganga í Evrópusambandið. 

Anna Margrét sagðist ekki vera að ásaka ráðherrann um lögbrot en það vekti upp spurningar hvort það væri ekki alvarlegur hlutur ef ráðherra ákveði að ganga gegn samþykkt Alþingis. Unnur Brá benti á móti á að þingmenn væru bundnir af samvisku sinni en ekki stefnu flokka. Afstaða Jóns Bjarnasonar til aðildar að Evrópusambandinu hefði alltaf verið skýr. Anna Margrét sagðist vera sammála því en ráðherrum bæri að fylgja ákvörðunum Alþingis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert