ESA rannsakar endurreisn Sjóvár

Höfuðstöðvar Sjóvár.
Höfuðstöðvar Sjóvár.

Eftirlitsstofnun EFTA hefur hafið formlega rannsókn á aðstoð, sem íslenska ríkið veitti tryggingafélaginu Sjóvá þegar fyrirtækið var endurfjármagnað á síðasta ári. Segir ESA, að ríkisaðstoðin hafi numið 11,6 milljörðum króna og falist í eiginfjárframlagi íslenska ríkisins.

Fram kemur á heimasíðu ESA, að þessi ríkisstyrkur kunni að hafa verið veittur í andstöðu við lög að mati stofnunarinnar.

Málavöxtum er lýst á vef ESA. Þar kemur fram, að íslenska ríkið eignaðist 73% hlut í Sjóvá í kjölfar samninga um endurfjármögnun á félaginu árið 2009. Fyrir hlutaféð greiddi ríkið með skuldabréfum útgefnum af Landsvirkjun og fjárfestingabankanum Askar Capital metnum að verðmæti 11,6 milljarða króna, en bæði bréfin voru í eigu ríkisins.

Skuldabréfin voru upphaflega seld eignarhaldsfélagi í eigu Glitnis í júlí 2009. Glitnir notaði síðan bréfin sem eiginfjárframlag við endurfjármögnun Sjóvár. Ríkið veitti Glitni 18 mánaða greiðslufrest og bar skuld Glitnis við ríkið enga vexti. Að auki átti Glitnir kost á að borga fyrir skuldabréfin með hlutum í Sjóvá, sem félagið nýtti sér í maí 2010.

Það er frummat eftirlitsstofnunar EFTA að með þessum viðskiptum hafi íslenska ríkið leitt björgunaraðgerðir í þágu ógjaldfærs tryggingafélags. Það hafi verið gert án þess að tilkynna það ESA líkt og lög mæli fyrir um.

Íslensk stjórnvöld hafa haldið því fram, að viðskiptin hafi verið gerð á markaðsforsendum og því hafi engrar tilkynningar verið þörf. ESA hefur þó efasemdir um að markaðsfjárfestar hefðu farið út í slíka fjárfestingu í júlí 2009.

ESA tók mál þetta upp af eigin frumkvæði í kjölfar frétta í fjölmiðlum en síðar barst einnig kvörtun frá keppinauti Sjóvár.

Í formlegri rannsókn sinni sem ákveðið var að hefja í dag mun ESA kanna nánar hvort fjárfestingin fól í sér ríkisaðstoð. Ef sú er raunin mun ESA meta hvort slík aðstoð sé samrýmanleg EES samningnum.

Haft er eftir Per Sanderud, forseta ESA, að íslenska ríkið þurfi nú að færa rök fyrir því að nauðsynlegt hafi verið að grípa til þessarar björgunar í því skyni að afstýra alvarlegri truflun á efnahagi landsins.

ESA mun nú óska eftir frekari athugasemdum frá íslenskum stjórnvöldum og öðrum aðilum sem hafa hagsmuna að gæta.

Vefur ESA

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert