Vill aðgerðir strax

Herjólfur siglir sína fyrstu ferð frá Vestmannaeyjum í Landeyjahöfn
Herjólfur siglir sína fyrstu ferð frá Vestmannaeyjum í Landeyjahöfn Rax / Ragnar Axelsson

Bæjarráð Vestmannaeyja krefst þess að tafarlaust verði fenginn öflugur dælubúnaður erlendis frá og/eða dýpkunarskip sem ræður við að athafna sig við þær aðstæður sem nú eru í Landeyjahöfn. Ennfremur að þegar verði ráðist í hönnun og smíði nýs skips í stað þess sem nú siglir í Landeyjahöfn eins og áætlað var árið 2008.

Þetta kemur fram í afgreiðslu bæjarráðs að loknum fundi í hádeginu.

Fram kemur að bæjarráði hafi borist þær upplýsingar að Landeyjahöfn verði lokuð um ótilgreindan tíma vegna sandburðar og gosefna frá Eyjafjallajökli.  Bæjarráð hafi áður lýst skilningi sínum á byrjunarörðugleikum siglinga í Landeyjahöfn og ítrekar þann skilning.  Um leið ætlast bæjarráð til þess að ýmsum kröfum þess til samgangna verði mætt.

 Gerð er krafa um að siglt verði til Þorlákshafnar sé ekki hægt að sigla í Landeyjahöfn vegna þess að samgöngur við Vestmannaeyjar megi ekki rofna. „Í siglingum til Þorlákshafnar verður þjónusta og áætlun að vera í samræmi við þá siglingaleið.  Tryggja þarf að lágmarki tvær ferðir á dag auk þess sem í boði verða að vera kojur og veitingaaðstaða.“

Áréttað er að Landeyjahöfn og Vestmannaeyjahöfn eru aðalhafnir Herjólfs. „Allra leiða verður að leita til að opna Landeyjahöfn sem fyrst og tryggja að hún haldist opin,“ segir m.a. í samþykktinni. Auk þess er bent á að bæta þurfi upplýsingastreymi í sambandi við Herjólf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert