Ríkisstjórnin var vöruð við

Skuggahverfið úr lofti.
Skuggahverfið úr lofti. Rax / Ragnar Axelsson

Ríkisstjórnin var vöruð við afleiðingum þess að láta þúsundir heimila fara undir hamarinn en kaus að láta markaðinn ráða för. Þetta fullyrðir Alex Jurshevski, fjármálasérfræðingur hjá fjármálafyrirtækinu Recovery Partners, en hann segir Bandaríkjastjórn þrýsta á banka um að lækka húsnæðislán.

Jurshevski fundaði með íslenskum þingnefndum í mars og færði þá rök fyrir því að það gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf ef svo stór hluti heimila yrði settur í gjaldþrot með tilheyrandi hruni í fasteignaverði.

Ríkisstjórnin stæði frammi fyrir tveimur vondum kostum. Annar væri að halda áfram á sömu braut, sem væri verra, ellegar að grípa inn í og láta bankana taka á sig tap við niðurfærslu húsnæðislána.

Síðari kosturinn væri sem segir ekki góður en myndi þó verða til að styrkja heimilin og þar með stuðla að því að neysla í hagkerfinu héldist í horfinu.

Forsendurnar brostnar

Með því að stefna svo stórum hluta heimila í þrot væri verið að stuðla að auknum samdrætti í neyslu með tilheyrandi aukningu í atvinnuleysi eftir því sem verslun innanlands minnkar.

„Íslenska fjármálakerfið gengur aðeins upp ef verðlagning á húsnæði er eðlileg og þegar aukinn kaupmáttur er knúinn áfram af hagvexti og litlu atvinnuleysi. Nú horfir Ísland fram á niðurfærslu á húsnæðisverði á tímum mikils offramboðs, stöðnun í launaþróun, aukið atvinnuleysi, neikvæðan hagvöxt og verðhjöðnun - staða sem er slæm fyrir þá sem tóku húsnæðislán. Ástandið er afleiðing þess að íslenska fjármálakerfið heimilar ekki afskriftir á lánum,“ segir Jurshevski. 

Án fordæmis

Jurshevski segir aðspurður að staðan á fasteignamarkaðnum á Íslandi og í Bandaríkjunum, svo dæmi séu tekin, sé án fordæmis frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. 

Það hafi aldrei gerst fyrr að svo mörg heimili stæðu frammi fyrir því að missa heimili sín vegna fasteignabólu sem hefði sprungið. Því þurfi að grípa til óhefðbundinna aðgerða til að takast á við fordæmislausan vanda.

Máli sínu til stuðnings segir Jurshevski að Bandaríkjastjórn þrýsti nú á fjármálastofnanir að lækka fasteignalán. Verð á fasteignum hafi enda hrunið og nefnir Jurshevski til dæmis að það sé nú allt að 50% lægra á Flórída en fyrir hrun. Þeir sem hafi tekið fasteignalán setji því uppi með lán sem séu langt yfir markaðsvirði fasteignanna sem þeir keyptu er fasteignabólan reis sem hæst.

Íslendingar skulda meira

Hann segir Íslendinga skulda meira í húsnæðislán en flestar þjóðir.

„Samanlögð húsnæðislán Íslendinga námu 217% af þjóðarframleiðslu árið 2008, hlutfall sem er tvöfalt til þrefalt meira en í flestum ríkjum,“ segir Jurshevski sem leiðir líkur að því að hlutfallið sé nú jafnvel komið í 250%. 

Jurshevski er hér með Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á …
Jurshevski er hér með Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á góðri stund. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert