Grýttu hnullungi í lögreglu

Lögreglumaður heldur á hnullungi sem félagi hans í lögregluliðinu fékk …
Lögreglumaður heldur á hnullungi sem félagi hans í lögregluliðinu fékk í öxlina fyrr um kvöldið. Áætlað var að hnullungurinn væri á annað kíló. Morgunblaðið/Ómar

Skömmu áður en mótmælin leystust upp um miðnætti í nótt grýttu ungir mótmælendur eggjum og öðru lauslegu, að því er virtist grjóti, að lögreglu, og höfðu uppi ókvæðisorð um laganna verði. Fyrr um kvöldið var stórum hnullungi grýtt í öxl eins lögreglumanns.

Rétt áður en mótmælunum lauk reyndu tveir ungir menn að bera garðbekk á bálkest sem slökkt hafði verið í á Austurvöll en gáfust upp á miðri leið.

Mennirnir ögruðu lögreglunni sem hélt stillingu sinni en ljóst má vera að hætta getur skapast þegar hlutum er grýtt að fólki úr slíkri fjarlægð.

Um hálf tólf leytið gengu nokkrir tugir lögreglumanna út á Austurvöll og slökktu eldinn sem þar hafði verið kveiktur.

Að þessu loknu gengu lögreglumenn aftur á bak í keðju en á meðan á þessu stóð ögruðu mótmælendur lögreglunni með fúkyrðum og öðrum látalátum.

Þegar eldurinn hafði verið slökktur kom í ljós að eftir því sem leið á kvöldið hafði allskyns rusli verið kastað á bálið.

Í fyrstu var notast við vörubretti en þegar þau þraut sóttu mótmælendur garðbekki og síðan brúsa og annað lauslegt. 

Lögreglan hélt stillingu sinni 

Lögreglumenn sem blaðamaður ræddi við upp úr miðnætti báru sig vel og sögðu engin meiðsl hafa orðið á fólki, eftir því sem þeir kæmust næst.

Einn benti á Alþingishúsið og spurði hver myndi borga þrifin. Skammt frá var hópur unglinga úr mótmælunum fyrir utan Café París og virtist sem þeir væru ekki vissir um hvað þeir ættu til bragðs að taka. Þeir voru svo á bak og burt skömmu síðar.

Andartaki síðar mátti sjá slökkviliðsmenn sprauta vatni á ruslahauginn sem í ljós kom þegar eldurinn hafði verið slökktur en ekki er ljóst hvort eldfimur vökvi var í brúsunum sem þar voru.

Þrjátíu og þrjár rúður voru brotnar í Alþingishúsinu. Til stendur að hreinsa upp eftir mótmælin í nótt. Þingverðir segja að ruslið sem safnaðist saman fyrir utan þinghúsið sé að minnsta kosti helmingi meira en þegar mest var í búsáhaldabyltingunni.

Mótmælendur ögra lögreglu skömmu eftir að eldurinn var slökktur.
Mótmælendur ögra lögreglu skömmu eftir að eldurinn var slökktur. Morgunblaðið/Ómar Óskarsson
Tveir ungir menn rifu upp garðbekk og áfastar hellur. Myndin …
Tveir ungir menn rifu upp garðbekk og áfastar hellur. Myndin var tekin augnabliki eftir að þeir gáfust upp við að bera hann á bálið. Nokkrum mínútum síðar voru mótmælendur á bak og burt.
Mikill ruslahaugur kom í ljós þegar eldurinn var slökktur. Myndin …
Mikill ruslahaugur kom í ljós þegar eldurinn var slökktur. Myndin var tekin skömmu fyrir miðnætti, rétt áður en mótmælunum lauk. Ljósmynd/Baldur Arnarson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert