Uppboðsmál í forgang

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Við höfum miklar áhyggjur af þessum uppboðsmálum og munum setja í forgang að taka á þeim. Það eru ýmis úrræði sem geta þar komið til greina,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.

„Staðan er nú samt einfaldlega sú að við höfum frestað uppboðunum í mjög langan tíma, og þann frest átti að nýta til þess að fólk gæti unnið úr sínum málum. Staðan hjá sumum er þannig að það verður ekki hægt að bjarga þeim og þá þarf að tryggja betur öryggisnet fyrir það fólk, sem ekki getur búið í eigin húsnæði. Og það vantar mjög mikið upp á það í okkar samfélagi,“ segir hún.

„Það er alveg ljóst að lokun félagslega íbúðakerfisins árið 2000 er að koma í bakið á okkur. Það er m.a. hluti af þeim vanda sem við búum við núna,“ sagði Jóhanna ennfremur.

Hún sagði mikilvægt að allir, sem séu með sín mál í vinnslu núna í kerfinu, í bönkunum og hjá umboðsmanni, fái uppboðum frestað þar til ljóst verður hvaða lausnir eru fyrir hendi. „1. nóvember er enginn lokadagur í því efni að mínu viti ef á annað borð er hægt að leysa mál þessa fólks.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert