Eyjamenn knúðu fram sigur í Kaplakrika

Elmar Erlingsson sækir að vörn FH en hann skoraði 15 …
Elmar Erlingsson sækir að vörn FH en hann skoraði 15 mörk í Kaplakrika í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

FH og ÍBV áttust við í þriðja leik sínum í undanúrslitaeinvígi Íslandsmóts karla í handbolta í kvöld og lauk leiknum með sigri ÍBV 29:28.

Leikið var á heimavelli FH, Kaplakrika. Fyrir leikinn hafði FH unnið tvo leiki.

Liðin leika því í fjórða sinn, næst í Vestmannaeyjum á miðvikudaginn, þar sem Eyjamenn geta jafnað einvígið og tryggt sér hreinan oddaleik í Kaplakrika.

Það var allt hnífjafnt í fyrri hálfleik milli liðanna. Eyjamenn skoruðu fyrsta mark leiksins eftir þrjár mínútur en stuttu áður höfðu stuðningsmenn ÍBV hennt miklu magni af salernisrúllum inn á völlinn. Ekki í fyrsta skiptið en skal það tekið fram að þessi gjörningur hefur engan meitt og er gert þegar lítið liggur við eða alltaf í upphafi leiks.

Næsta mark kom ekki fyrr en á fimmtu mínútu þegar FH jafnaði. FH komst síðan yfir í stöðunni 2:1 en eyjamenn jöfnuðu strax og komust yfir í stöðunni 3:2. Svona gekk allur fyrri hálfleikurinn fyrir sig þar sem liðin skiptust á að jafna og komast yfir.

Munurinn var aldrei meira en eitt mark með einni undantekningu og það var í stöðunni 13:11 fyrir FH en ÍBV svaraði því með þremur mörkum í röð og leiddu í hálfleik með einu marki, 14:13 fyrir ÍBV.

Elmar Erlingsson skoraði 64% marka ÍBV í fyrrri hálfleik og var með 9 mörk sem er stórkostlegt í svona leik. Hjá FH var Aron Pálmarsson með 5 mörk í fyrri hálfleik.

Markvarslan í fyrri hálfleik var fín en Daníel Freyr Andrésson varði 7 skot fyrir FH og Petar Jokanovic var með 9 skot fyrir ÍBV.

Hádramatískur síðari hálfleikur færði eyjamönnum annað tækifæri.

Eyjamenn mættu dýrvitlausir út í síðari hálfeikinn og náðu mest 5 marka forskot í stöðunni 22:17 fyrir ÍBV. Þegar 44 mínútur voru liðnar af leiknum fékk Jakob Martin Ásgeirsson rautt spjald fyrir að fara beint í andlitið á Elmari Erlingssyni.

Eftir þetta færðist mikill hiti í leikinn og áttu dómararnir Sigurður Hjörtur og Svavar Ólafur í fullu fangi með að halda stjórn á leiknum en leystu það verkefni af mikilli fagmennsku.

Leikmenn FH byrjuðu hægt og rólega að saxa niður forskot eyjamanna og tókst að jafna leikinn í stöðunni 25:25. FH-ingar voru ekki hættir því þeir gerðu betur og komust í 27:25 og stemmdi allt í að FH væri á leiðinni í úrslitaeinvígið.

Eyjamenn voru alls ekki sammála því og jafnaði Daniel Vieira í stöðunni 28:28. FH tók leikhlé til að freista þess að ná í mark og að minnsta kosti tryggja framlengingu en það gekk ekki því Pavel Miskevich varði og eyjamenn brunuðu upp í sókn og skoruðu þegar um 5 sekúndur voru eftir. Leikmenn FH reyndu að jafna en Pavel varði aftur og leiknum lokið með sigri ÍBV 29:28.

Markahæstur í liði FH var Aron Pálmarsson með 9 mörk en í liði ÍBV var Elmar Erlingsson með hvorki meira né minna en 15 mörk, þar af 4 úr vítaskotum.

Daníel Freyr Andrésson varði 15 skot í leiknum og Petar Jokanovic 14 skot fyrir ÍBV. Pavel Miskevich varði 8 skot, þar af eitt víti.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

FH 28:29 ÍBV opna loka
60. mín. Leik lokið EYJAMENN VINNA ÞENNAN LEIK Í KAPLAKRIKA
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert