Dómi um aðalskipulag áfrýjað

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Umhverfisráðherra hefur áfrýjað dómi héraðsdóms um aðalskipulag í Flóahreppi til Hæstaréttar. Þetta kom fram á Alþingi í dag. Ráðherra sagði leiðsögn héraðsdóms ekki hafa verið nægilega skýra og því þurfi Hæstiréttur að skera úr um málið. Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagði að enn væri verið að leggja steina í götu framkvæmda.

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, neitaði að staðfesta aðalskipulag Flóahrepps á þeirri forsendu að Landsvirkjun hefði tekið þátt í að greiða kostnað við skipulagið, en skipulagið gerir ráð fyrir Urriðafossvirkjun. Sveitarfélagið ákvað að höfða mál gegn ráðherra og niðurstaða héraðsdóms var að ráðherra hefði ekki haft heimild til að synja aðalskipulagi Flóahrepps staðfestingar. Framkvæmdaaðilum, eins og Landsvirkjun, væri ekki óheimilt að taka þátt í kostnaði við aðalskipulag sveitarfélaga. 

Sigurður Ingi spurði Svandísi, út í málið, m.a. hvort hún átti sig á tengslum skipulagsmála, stöðvun og seinkun framkvæmda og fjárlaga. Hvort hún átti sig á því að áhrifin eru slík að minni tekjur verði til í samfélaginu og því minni skatttekjur og því þurfi að grípa til frekari niðurskurðar.

Svandís sagði að þegar héraðsdómur leiðbeinir ekki aðilum, hvort sem er sveitarstjórnum eða skipulagsyfirvöldum, betur en hafi verið þurfi að fá úr því skorið fyrir Hæstarétti hvað eigi að hafa að leiðarljósi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert