Framkvæmdum við vatnsverksmiðju frestað

Hafnarfjörður.
Hafnarfjörður. www.mats.is

Glacier World ehf. hefur farið fram á það við Hafnarfjarðarbæ að gildandi viljayfirlýsing verði framlengd um eitt ár. Erindið var samþykkt í framkvæmdaráði og hafnarstjórn Hafnarfjarðar í dag og verður tekið fyrir í bæjarráði í fyrramálið.

Í september 2008 var skrifað undir samninga á milli Hafnarfjarðarbæjar og Glacier World um um sölu á vatni úr Kaldárbotnum til átöppunar í verksmiðju fyrirtækisins sem fyrirhugað er að reisa í suðurhöfninni. Jafnframt var skrifað undir samning Hafnarfjarðarhafnar við fyrirtækið um leigu á aðstöðu á hafnarsvæðinu og vöru- og flutningagjöld.

Stefnt var að því að framkvæmdir hæfust innan nokkurra mánaða en verulegar tafir hafa orðið á öllum undirbúningi, m.a. vegna aðstæðna í íslenska efnahagskerfinu sem versnuðu til muna í október 2008.

Magnús Magnússon framkvæmdastjóri Glacier World ehf. mætti á fund hafnarstjórnar Hafnarfjarðar í dag og gerði grein fyrir stöðu mála hjá fyrirtækinu og áformum eigenda þess varðandi vatnsátöppun og útflutning frá Hafnarfirði. Enn stendur til að virða þann samning sem gerður var en óskað var eftir frestun, þ.e. framlengingu viljayfirlýsingar, á framkvæmdum til ársloka 2011.

Hafnarstjórn samþykkti umbeðna framlengingu, líkt og framkvæmdaráð í morgun. Víst þykir að bæjarráð Hafnarfjarðar geri slíkt hið sama á fundi sínum í fyrramálið.

Fimmtíu manna verksmiðja

Fyrirtækið Glacier World var stofnað af fjárfestum og framkvæmdaraðilum frá Sádi-Arabíu. Samkvæmt upphaflegum samningi mun fyrirtækið fá aðgang að allt að 30 sec litrum að vatni í gegnum pípur sem verða sérstaklega lagðar að fyrirhugaðri verksmiðju.

Gert var ráð fyrir um 7.000 fermetra verksmiðjuhúsi á hafnarsvæðinu og áætlað að um fimmtíu manns muni starfa í verksmiðjunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert