Skuldavandinn ræddur á Alþingi

Skuldamál heimilanna voru áberandi í umræðum um störf þingsins á Alþingi í morgun. Rauði þráðurinn var betra samstarf þingflokka og lagt var til, oftar en einu sinni, að þingmenn eigi að snúa bökum saman. Þingmenn virtust fullir vissu um að enginn muni lenda á götunni.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður félags- og tryggingamálanefndar, benti á að þegar hafi bankarnir verið kallaðir til fundar og óskað eftir mati þeirra á stöðunni. Hún sagði stjórnvöld ekki fá upplýsingar nema þegar skaðinn er skeður og þá í gegnum fjölmiðla. „Til að við getum verið með viðbúnað verðum við að fá upplýsingar,“ sagði Sigríður og bætti við að nefndin hefði þegar hafið smíð frumvarps til að sníða af agnúa sem upp hafa komið.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tók sæti í ofangreindri nefnd í gær. Hún sagði þingmenn stjórnarmeirihluta og stjórnarandstöðu vinna sem einn maður í nefndinni að því að gera nauðsynlegar lagabreytingar. Hún sagðist jafnframt hafa fulla trú á því að í góðri samvinnu verði hægt að koma málum þannig fyrir að enginn fari á götuna.

Stjórnina skortir stefnu

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að sýna verði athafnir í stað orða þegar kemur að skuldavandanum, krafan sé um almennar leiðréttingar og það er krafa um að koma atvinnumálum af stað. Hann sagði vandamálin helst snúa að forystunni. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, tók undir með Guðlaugi og sagði stærstu vandamálin stranda á stjórninni. Landið sé stjórnlaust og stefnu skorti í stærstu málunum.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði sláandi hversu lítil fjárfesting hafi verið í atvinnulífinu að undanförnu og ef Ísland á að komast úr kreppunni þurfi þetta að breytast. Þá þurfi einnig að breytast hið neikvæða viðhorf ríkisstjórnarinnar til fjárfestingar í atvinnulífinu.

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, sagði að sem betur fer hafi margir sloppið þokkalega frá þeirri kreppu sem Ísland er í. Engu að síður glími mörg heimili við mikinn vanda og þurfi þingmenn að leggja sig fram við að vinna sameiginlegar lausnir. Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstri grænna, sagði þingmenn verið að stíga upp úr skotgröfunum, snúa bökum saman og leita allra leiða til að finna lausnir.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert