„Lífsspursmál fyrir Selfoss“

Til stendur að leggja hjúkrunardeildina á Heilbrigðisstofnun Suðurlands niður.
Til stendur að leggja hjúkrunardeildina á Heilbrigðisstofnun Suðurlands niður. Sigurður Jónsson

„Það mun hafa gríðarleg áhrif á þjónustuna og samfélagið allt ef af þessu verður. Hjúkrunarsviðið, skurðstofan, ljósmæðragangur, fæðingardeildin og legudeildin verða lögð niður,“ segir Guðrún Ágústsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Hún segir þjónustuna „lífsspursmál“.

„Þetta er hreinlega lífsspursmál fyrir okkur að halda þessari starfsemi hérna. Þetta verður bara að halda áfram. Þetta er gífurlegt áfall, mikið högg. Við fengum að vita þetta í byrjun vikunnar. Auðvitað var öllum gríðarlega brugðið. Það eru tugir starfa í húfi. Við erum líka að hugsa um sjúklingana okkar og aðstandendur þeirra. Þetta kemur við marga og við erum með fjallveg sem þarf að fara yfir á veturna.

Hjá okkur eru sjúklingar sem þurfa mikla umönnun, þar með talið eldra fólk og sjúklingar sem þurfa mikla lyfjagjöf. Í þessum hópi eru sjúklingar sem eru deyjandi og í líknarmeðferð. Við sinnum bráðaþjónustu á stóru svæði,“ segir Guðrún.

Þurfa að keyra til Reykjavíkur

- Þannig að þetta mun hafa mikil áhrif á samfélagið?

„Já, þá þarf að keyra allt fólkið til Reykjavíkur.“

- Og það á líka við um líknardeildina?

„Já, ef það verða engin rúm á legudeildinni, á hjúkrunarsviði.“

- Þannig að Selfyssingar munu þurfa að keyra til Reykjavíkur til að hitta deyjandi ástvini sína?

„Já, það verður þannig. Þetta er alveg skelfileg tilhugsun. Maður þorir varla að hugsa hana til enda.“

Allir að berjast gegn þessu

- Elurðu þá von í brjósti að það verði snúið við af braut niðurskurðarins?

„Já. Guð minn góður. Það ætla ég að vona fyrir okkur öll. Það eru allir á fullu að berjast gegn þessu. Ég vona af öllu hjarta að það verði eitthvað gert í þessum málum. Maður getur ekki hugsað þessa hugsun til enda, hvort sem um starfsfólkið eða skjólstæðinga okkar er að ræða. Þetta er alveg hræðilegt,“ segir Guðrún Ágústsdóttir.

Efnt verður til opins íbúafundar vegna niðurskurðarins í Sunnulækjaskóla á laugardag kl. 14.00 og hvetur Guðrún heimamenn til að fjölmenna á fundinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert