Niðurskurðurinn er óþolandi

Bjarni Harðarson.
Bjarni Harðarson. sudurland.is

„Það er  óþolandi að ríkið ætli að bregðast grunnskyldum sínum og fara í mikinn niðurskurð á sviði heilbrigðismála á sama tíma og hefjast á handa við margvísleg gæluverkefni stjórnmálamanna,“ segir Bjarni Harðarson bóksali á Selfossi og varabæjarfulltrúi í sveitarfélaginu í Árborg.

Boðað hefur verið að fjárframlög til sjúkrasviðs Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU)muni lækka um 412 milljónir króna á næsta ári.

Legurýmum lokað 

Læknaráð HSU segir þetta munu valda miklum skaða. Draga verði verulega úr þeirri þjónustu sem hægt verður að veita skjólstæðingum stofnunarinnar, en þeir eru um 20 þúsund manns á ári. Legurýmum verði lokað, læknar sem nú starfa á sjúkrasviði muni hverfa til annarra starfa og þjónusta sem þeir hafa veitt hingað til, jafnt á legudeild sem á göngudeild, leggst af. Þetta eru skurðlæknir, hjartasérfræðingur, meltingarsérfræðingur, kvensjúkdóma- og fæðingarlæknir og svæfingarlæknir.

Gæluverkefnin sem Bjarni Harðarson kallar svo eru bygging hátæknisjúkrahúss og nýs fangelsis og sameining sveitarfélaga, innganga í ESB og gerð nýs Suðurlandsvegar með tveimur akreinum til hvorrar áttar.

Stórframkvæmdir verða að bíða 

„Stórframkvæmdir verða að bíða í þessu árferði, til að mynda gerð fjögurra akreina vegar en 2+1 vegur hefði verið látinn duga í flestum öðrum löndum. Það er skammgóður vermir að byggja nýtt háskólasjúkrahús þegar ljóst má vera að sá mikli niðurskurður í heilbrigðismálum sem við stöndum nú frammi fyrir verður ekki unninn til baka í bráð. Höfuðborgarstefnan sem rekin er í heilbrigðisþjónustunni er satt að segja mjög sorgleg enda hefur verið sýnt fram á að sjúkrahúsin úti á landi eru yfirleitt mjög hagkvæmar einingar og þekkt er að þar er veitt fyrsta flokks þjónusta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert