Ríkisstjórnin ekki líkleg til að finna lausn

Þorsteinn Pálsson
Þorsteinn Pálsson mbl.is/Rax

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi ritstjóri, sendiherra og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, segir að Íslendingar standi frammi fyrir tveimur skýrum kostum á sviði peningamála. „Annað hvort veljum við krónuna með einhvers konar höftum eða evruna. Ríkisstjórn sem vinnur að því að velja báða kostina er ekki líkleg til að finna lausn á fjárhagsvanda heimilanna," segir Þorsteinn.

Þetta kom fram í ræðu Þorsteins á fundi FíS fyrr í vikunni.

Þrjár gífurlegar en ósjálfbærar innspýtingar

Þar sagði hann einnig: „Frá miðri síðustu öld höfum við fegnið þrjár gífurlega miklar en ósjálfbærar innspýtingar í hagkerfið. Fyrst var það stríðsgróðinn. Síðan kom okkar eigin rányrkja eftir útfærslu landhelginnar. Loks tók erlent lánsfé í byrjun þessarar aldar að streyma stjórnlaust inn í landið.

Þessar ósjálfbæru innspýtingar færðu okkur lífskjör sem þjóðarbúið hafði ekki skapað og gat því ekki staðið undir.
Hver er pólitíska skýringin á því að síðasta falska innspýtingin varð okkur að falli?

Sumir segja að óheftur kapitalismi hafi ráðið öllu þar um. Svarið er þá að afnema kapitalismann. Það er annar af tveimur hugmyndafræðilegum áttavitum sem ríkisstjórnin siglir eftir. Hinn er samstarfsáætlunin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn," sagði Þorsteinn Pálsson. 

Hann velti fyrir sér hvað Ísland eigi heima í alþjóðasamfélaginu í byrjun tuttugustu og fyrstu aldar? Hvers kyns hagkerfi ætlum við að þróa eftir efnahagshrunið?

Sósíalistar í VG og meirihluti Sjálfstæðisflokksins Þrándur í Götu

„Um miðja síðustu öld gat pólitíkin leyst það verkefni að svara fyrri spurningunni með afgerandi og árangursríkum hætti. Vegna skorts á hugmyndafræðilegri fótfestu er hætt við að hvorugri spurningunni verði svarað nú.

Sósíalistar í Vinstri grænu ásamt meirihluta Sjálfstæðisflokksins eru nú Þrándur í Götu frekara samstarfs Íslands við Evrópuþjóðirnar. Þar með er útilokað að íslensk heimili og íslenskt atvinnulíf geti reist nýja framtíð á stöðugri mynt.
Grundvallarágreiningur er hins vegar á milli Sjálfstæðisflokksins og sósíalista í Vinstri grænu um skattamál, orkunýtingu og fiskveiðistefnu. Þessir flokkar geta því ekki unnið saman þó að þeir eigi samleið í Evrópumálum og peningamálum.

Evrópumálin útiloka samstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar þótt ágreiningur á öðrum sviðum sé brúanlegur.

Komi til þess að Samfylkingin króist af í Evrópumálunum er líklegt að hún gefi þau fremur eftir gagnvart samstarfsflokknum í núverandi ríkisstjórn en Sjálfstæðisflokknum.

Ólíklegt er að Samfylkingin myndi í því falli kjósa að standa utan stjórnar. Þó er ekki unnt að útiloka það.

Þetta er einföld mynd af þeirri óleysanlegu málefnakreppu á vettvangi stjórnmálanna sem veldur stöðnun efnahagslífsins og upplausn í samfélaginu.

Eigi þessi staða að breytast þarf þingmönnum á miðju og hægri væng stjórnmálanna sem styðja frekari Evrópusamvinnu að fjölga til muna. Ella verður málefnakreppan viðvarandi."

Ræða Þorsteins í heild



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert