Steig upp úr hjólastólnum

Amanda Boxtel var glaðleg að sjá er hún steig á …
Amanda Boxtel var glaðleg að sjá er hún steig á svið.

Eyþór Bender, nýráðinn framkvæmdastjóri fyrirtækisins Berkeley Bionics, kynnti á blaðamannafundi í Bandaríkjunum í gær sérstakan búnað sem gerir lömuðum kleift að standa upp úr hjólastólnum.

Bandaríska skíðakonan Amanda Boxtel var fengin til að kynna þennan byltingarkennda búnað, en hún lamaðist í skíðaslysi árið 1992 og hefur verið bundin við hjólastól upp frá því. Á fundinum steig hún bókstaflega á svið og gekk um skælbrosandi með hjálp búnaðarins, sem var upphaflega hannaður fyrir hermenn svo þeir gætu borið meiri byrðar.

Boxtel hefur verið í samstarfi við Íþróttasamband fatlaðra og aðstoðað við uppbyggingu vetraríþrótta fatlaðra á Íslandi. Hún hefur komið hingað til lands, haldið fyrirlestra og aðstoðað við skíðanámskeið fyrir fatlaða í Hlíðarfjalli.   

„Þessi manneskja er alveg ótrúleg en hennar markmið hefur alltaf verið að stíga í fæturna á ný,“ segir Anna Karólína Vilhjálmsdóttir framkvæmdastjóri fræðslu- og útbreiðslusviðs Íþróttasambands fatlaðra og góð vinkona Boxtel.  „Hún er mjög öflug við að verða öðrum að liði og sýna að það sé ekki neitt sem er ekki hægt.“

Hér má sjá myndbrot af Amöndu labba með aðstoð búnaðarins.



Eyþór Bender, Amanda Boxtel og Ted Kilroy glöð í bragði
Eyþór Bender, Amanda Boxtel og Ted Kilroy glöð í bragði
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert