Barist gegn loftslagsbreytingum

Hjólreiðar eru heilbrigður og umhverfisvænn ferðamáti.
Hjólreiðar eru heilbrigður og umhverfisvænn ferðamáti. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Dagurinn í dag, 10.10.10, er tileinkaður alþjóðabaráttu gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Af því tilefni hefur verið boðað til yfir 7.000 atburða í 188 löndum til að vekja athygli á auðveldum leiðum til að draga úr hlýnun loftslags.

Reykjavíkurborg tekur þátt í baráttudeginum og hefst formlega kl.14 með hjólreiðatúr frá Austurvelli og upp Hverfisgötu að Hlemmi. Þá er bent á ýmis „græn heilræði" s.s. að velja naglalaus vetrardekk, til að draga úr líkum á svifryki í vetur, slökkva á raftækjum í stað þess að hafa þau í biðstöðu og að nota taupoka í stað plasts við innkaup.   

Auk Reykjavíkur hefur verið boðað til atburða í tilefni baráttudagsins á Ísafirði og Sólheimum í Grímsnesi.  Háskólasetur Vestfjarða stendur fyrir fjölbreyttri dagskrá á Silfurtorgi á Ísafirði í dag þar sem m.a. verða pallborðsumræður um sjálfbærni á Vestfjörðum, pizzaofn sem gengur fyrir sólarorku, hjólreiðakeppni o.fl. auk þess sem heimildamyndin Future of Hope verður sýnd frítt.

Að Sólheimum í Grímsnesi verða plöntur gróðursettar í dag í tilefni dagsins auk þess sem sprotar verða seldir til áhugasamra garðyrkjumanna. Vinnustofa verður í gangi þar sem skapað verður úr endurunnum pappír og plasti og lífrænar kökur og kaffi verða til sölu auk lífrænnar framleiðslu s.s. á kertum og sápum og margt fleira.

Nánari upplýsingar um alþjóðabaráttudaginn gegn loftslagsbreytingum og dagskrána hér á landi má nálgast á vefnum Loftslag.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert