Fjölmenn mótmæli á Austurlandi

Niðurskurði til heilbrigðismála mótmælt í Neskaupstað
Niðurskurði til heilbrigðismála mótmælt í Neskaupstað Kristín Ágústsdóttir

Milli þrjú og fjögur hundruð manns mættu fyrir utan Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað til að mótmæla fyrirhuguðum niðurskurði fjárframlaga til heilbrigðisþjónustu á Austurlandi.

Einnig var mótmælt á öðrum starfsstöðum Heilbrigðisstofnunar Austurlands á sama tíma. Á Egilsstöðum, Vopnafirði og Seyðisfirði tóku menn höndum saman og mynduðu keðjur utan um stofnanirnar.

Samkvæmt tillögum heilbrigðismálaráðherra er ráðgert að skera þurfi niður um 500 milljónir eða um 22% í starfsemi HSA, en 52% á sjúkrasviði sem bitnar hart á sjúkrahúsunum  í Neskaupstað og á Egilsstöðum. Afleiðingar af niðurskurðinum verða skelfilegar fyrir Austurlandsfjórðung og ljóst að forsenda búsetu fyrir marga brestur. Ef til óbreytts niðurskurðar kemur þarf að segja upp 80 manns á starfssvæði HSA.

Á Neskaupstað tóku til máls fulltrúar bæjarfulltrúa og starfsmanna, fulltrúar hollvinasamtaka auk Jóns Bjarnar Hákonarsonar, forseta bæjarstjórnar Fjarðarbyggðar.

Jón Björn segir fyrirhugaðan niðurskurð vera aðför að landsbyggðinni.

„Þetta er auðvitað ekkert annað en árás á lífsgæði fólks sem býr úti á landi. Í því sveitarfélagi sem ég er í forsvari fyrir, sem kemur með 25% af þjóðartekjunum í útflutningnum, þá finnst mér helvíti hart að menn skuli sviptir grundvallarmannréttindum.

Ég hef fullan skilning á því að ríkið þurfi að spara. Í sveitarfélaginu erum við sjálfir að vinna að aðhaldsaðgerðum á öllum sviðum. Þá horfir maður auðvitað fyrst til þess hvað þurfi að bjóða upp á, hvað maður vilji bjóða upp á og hverju maður geti sleppt. Eitt af því er náttúrulega að standa vörð um grunnlífsgæði íbúanna.“

Jón segir kröfuna vera þá að draga niðurskurðaráformin til baka.

„Við viljum að það verði bakkað með þessi áform. 52% niðurskurður á sjúkrasviði HSA þýðir atvinnumissi upp á 80-90 störf, þar af 20-30 á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað, en hitt dreifist yfir svæðið. Það er alveg jafn slæmt, sama hvar það er. Þetta þýðir það að sumt af þessu fólki mun flytja úr landi, einkum sérhæft starfsfólk. Það fær enga aðra vinnu annars staðar. Þá getur maður spurt sig hvar sparnaður ríkisins sé í því, að missa útsvars- og skatttekjur.

Síðan er það okkar bjargfasta trú að stór hluti af þessum aðgerðum muni kosta meira en það sem menn ná út úr því í sparnaði. Þegar menn þurfa að flytja sjúklinga um langan veg á sjúkrahús þar sem sjúkrarúm eru dýrari, þá hlýtur maður að spyrja sig hverju það skili. Á austurlandi er það enginn skottúr að skjótast á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri eða til Reykjavíkur.“

Jón segir heilbrigðisþjónustu mikilvægan þátt í almennri atvinnubyggingu.

„Alcoa hafa sagt að eitt af því sem þeir horfðu til þegar þeir voru að velja staðsetningu og ákveða að hefja rekstur á Íslandi hafi verið nálægðin við sjúkrahús og heilsugæslu. Svo vil ég minna á það að stór hluti flotans veiðir út af austurlandi lungann úr árinu. Jafnvel hundruð sjómanna á sjó. Það er því mikið öryggisatriði að geta komi þeim í hendur fagfólks, komi eitthvað upp á. “

Seyðfirðingar fjölmenntu við Sjúkrahúsið á Seyðisfirði og mótmæltu væntanlegum niðurskurði …
Seyðfirðingar fjölmenntu við Sjúkrahúsið á Seyðisfirði og mótmæltu væntanlegum niðurskurði hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands. Athöfninni lauk með því að myndaður var hringur í kringum sjúkrahúsið. Einar Bragason
Frá mótmælunum á Seyðisfirði
Frá mótmælunum á Seyðisfirði Einar Bragason
Þessum verður sagt upp! - 80 manns standa fyrir framan …
Þessum verður sagt upp! - 80 manns standa fyrir framan Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað Kristín Ágústsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert