55 milljónum úthlutað úr starfsmenntasjóði

Félagsmálaráðuneytið
Félagsmálaráðuneytið Sverrir Vilhelmsson

Félags- og tryggingamálaráðherra úthlutaði í dag 55 milljónum króna úr starfsmenntasjóði ráðuneytisins. Styrkir voru veittir til 39 þróunar- og nýsköpunarverkefna af ýmsu tagi. Þetta er í síðasta sinn sem úthlutað er úr sjóðnum.

„Verkefnið „Víst geturðu lært stærðfræði“ sem Mímir-símenntun stendur að í samstarfi við Flöt – félag stærðfræðikennara var valið sem gott dæmi um áhugavert verkefni og nam styrkur til þess 1,9 milljónum króna,“ að því er segir í tilkynningu frá ráðuneytinu. 

„Markmiðið er að brjóta niður hindranir í stærðfræðinámi fullorðins fólks og þróa til þess námsefni við hæfi. Sem dæmi um fleiri verkefni sem hlutu styrk má nefna námskeið í málmsuðu og málmsmíði fyrir iðnaðarmenn, þróun og framleiðslu matvæla úr innlendu korni, frumkvöðlasmiðju fyrir innflytjendur og starfsnám og ráðgjöf fyrir eigendur og stjórnendur dreifbýlisverslana.“

Af öðrum verkefnum sem hlutu styrk má nefna verkefnið „Atvinnuuppbygging og öryggi ferðaþjónustu á sjó og vatni“ á vegum Háskólans á Hólum en það fékk 2 milljónir króna í styrk.

Þá fékk verkefnið „Þróun á líkani til skráningar á raunfærni ófagmenntaðra starfsmanna“ á vegum mannauðssviðs Landspítalans 2 milljónir króna í styrk.

Úthlutað úr sjóðnum í síðasta sinn

Fram kemur í tilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu að frá árinu 1992 hafi starfsmenntaráð „veitt rúmlega 800 milljónir króna í styrki til um 900 starfsmenntaverkefna sem hafa það að markmiði að efla hæfni starfsfólks og styrkja stöðu atvinnugreina og fyrirtækja hér á landi“.

Einnig kemur fram að Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra, hafi í ávarpi við afhendingu styrkjanna þakkað öllum sem starfað hafa á vettvangi þess fyrir vel unnin störf.

„Starfsmenntaráð hefur gegnt afar þýðingarmiklu hlutverki fyrir einstaklinga, atvinnulífið og samfélagið í heild og skapað þannig gífurleg verðmæti sem seint verða metin að fullu til fjár,“ sagði Guðbjartur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert