Grunnþjónustan skert

Frá Blönduósi
Frá Blönduósi

„Áhrifin af niðurskurðinum á mín störf er að sjúkraflutningar myndu aukast eins og hefur komið fram um tugi prósenta,“ segir Einar Óli Fossdal sjúkraflutningamaður og formaður starfsmannafélags Heilbrigðisstofnunarinnar á Blönduósi. Hann segir grunnþjónustu við sjúklinga í hættu.

„Hvað snertir niðurskurðinn erum við ekki að tala um sérfræðiþjónustu heldur grunnþjónustu.“

Einar Óli, sem sat fjölsóttan borgarafund um fyrirhugaðan niðurskurð hjá Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi í kvöld, telur að ekki verði gengið lengra á braut niðurskurðarins án þess að þjónustan verði skert verulega.

„Það sem verður að koma fram er að við hjá Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi erum nú þegar, með fullri virðingu fyrir öðrum heilbrigðisstofnunum á landinu, búin að fá 20 til 22% niðurskurð sem er mun meira en hjá flestum heilbrigðisstofnunum. Nú á að bætast við 14% niðurskurðarskrafa. Það er verið að skerða grunnþjónustu. Við erum þegar búin að skera inn að beini. Það er ekki hægt að skera niður meira. Það er ekki hægt,“ segir Einar Óli.

Að minnsta kosti 300 manns komu saman við Héraðshælið á Blönduósi og héldu fylktu liði í Félagsheimilið til að mótmæla niðurskurði ríkisstjórnarinnar á framlögum til heilbrigðismála í A-Húnavatnssýslu. Í ályktun, sem samþykkt var á fundinum segir, að  Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi hafi á undanförnum árum þurft að sæta miklum niðurskurði og nú sé svo komið að vegið sé illilega að lögboðinni heilbrigðisþjónustu og velferð íbúa í Austur-Húnavatnssýslu.

„Við þetta verður ekki unað.  Skorað er á ríkisstjórnina að draga til baka  þessa aðför að  Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi," segir síðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert